365 hf. leggur (87%) eignarhlut sinn í Saga Film inn í nýtt félag með starfsemi í 7 löndum, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ákveðið hefur verið að sameina rekstur Saga Film og dótturfélög þess rekstri fyrirtækisins European Film Group A/S, sem Baugur Group hefur nýverið fest kaup á. Félögin verða rekin sem sjálfstæðar einingar undir nýju félagi, European Film Group ehf., sem stofnað verður í því skyni.

365 átti 87% í Saga Film en eignast 63% í hinu nýja félagi og Baugur sem átt hefur 13% í Saga Film og 100% í EFG fær 37 %.

European Film Group A/S er samsteypa 9 félaga á sviði framleiðslu auglýsinga á Norðurlöndum. Félagið er með starfsemi í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.

Öll dótturfélög European Film Group verða rekin sem sjálfstæðar einingar og verða starfsstöðvar á Íslandi, í Skandinavíu, Tékklandi og í Bretlandi.

Áætluð heildarvelta félaganna fyrir árið 2007 er um 3,5 milljarðar króna, en félögin verður aðeins rekið í 4 mánuði undir hinu nýja félagi EFG.

Samruninn mun ekki hafa áhrif á heildarskuldir 365 hf og aukin umsvif og útvíkkun á starfseminni til Skandinavíu mun ekki kalla á fjárbindingu af hendi 365.

Samkvæmt Ara Edwald forstjóra mun tilkoma þessa nýja félags skapa Saga Film meira sjálfstæði gagnvart 365. Saga Film verður nú hluti af fjölþjóðlegu fyrirtæki með rekstur í 7 löndum. Eru flest fyrirtækin stærstu sjálfstæðu félögin á þessu sviði á sínum markaði og í góðum rekstri.

Saga Film hefur haft breiðari starfsemi en erlendu félögin, sem hafa aðallega starfað við  auglýsingaframleiðslu,, m.a. annars á sviði viðburðastjórnunar og þjónustu við kvikmyndagerð. Felast mikil tækifæri til að auka virði hins nýja félags með því að breikka þjónustuframboð flestra félaganna. Vel hefur gengið hjá Saga Film að koma á fót viðburðastjórnun hjá dótturfélagi sínu í Bretlandi 2AM og hafa íslensk fyrirtæki nýtt sér þjónustu þess. Auk þess skapar þetta  tækifæri til samvinnu á sviði framleiðslu auglýsinga- og sjónvarpsefnis, samnýtingu starfskrafta milli félaga og markaðsöflunar fyrir framleiðslu einstakra eininga.