Sprotafyrirtækið Saga Medica ehf. hefur nú bæst í hóp fyrirtækja á Frumkvöðlasetri Impru að því er kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag. Fyrirtækið framleiðir vörur sem byggðar eru á rannsóknum á íslenskum lækningajurtum, sem fengar eru úr íslenskri náttúru. Í upphafi hefur verið notast við hvönn (Angelica archangelica), en ætlunin er að safna, rækta og notast einnig við aðrar íslenskar jurtir. Fyrsta varan kom á markað árið 2002 og er stöðug vöruþróun í gangi.

Meðal annars eru fjallagrasahálstöflurnar vinsælu framleiddar af fyrirtækinu. Um 60% af vörum Saga Medica ehf. eru nú seld í íslenskum apótekum og byrjað er að kynna vörurnar í Skandinavíu. Markmið Saga Medica ehf. er að verða leiðandi fyrirtæki á Norðurlöndunum og alþjóðlega þekkt fyrir í þróun og framleiðslu náttúruvara úr norrænum lækningajurtum.


En hvaða þýðingu hefur það að fá aðstöðu á Frumkvöðlasetrinu? Í samtali við Sigríði Ingvarsdóttur, rekstrarstjóra Frumkvöðlaseturs Impru, segir hún að fyrirtækin fái almennt alla aðstoð og aðstöðu til að vaxa og dafna. "Fyrirtækin hafa gott aðgengi að sérfræðingum í gerð markaðs- og viðskiptaáætlana og almennum rekstri, en eru svo sérhæfð á sínu sviði." Fyrirtækin á Frumkvöðlasetrinu eru öll nýsköpunarfyrirtæki og mega ekki vera í samkeppni við önnur íslensk fyrirtæki. Saga Medica ehf. er tíunda fyrirtækið sem kemur inn á Frumkvöðlasetrið, en sum eru komin þaðan út eftir að hafa náð flugi, eins og til dæmis vefurinn tónlist.is.


Impra, sem er deild innan Iðntæknistofnunar, veitir öllum frumkvöðlum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi leiðsögn, sama í hvaða atvinnugrein þau eru, hvort heldur á sviði iðnaðar, sjávarútvegs, þjónustu eða annarra greina íslensks atvinnulífs. Impra starfrækir einnig Frumkvöðlasetrið til stuðnings frumkvöðlum og framgangi nýrra hugmynda.