Ferðaskrifstofan og ferðaskipuleggjandinn SAGA TRAVEL, Akureyri hlaut nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar í dag. Fyrirtækið þykir hafa verið mikil vítamínsprauta í vöruþróun norðan heiða, boðið um á fjölbreytta afþreyingu allan ársins hring og jafnvel allan sólarhringinn. Þar má meðal annars nefna spennandi næturferðir í Mývatnssveit og fleira.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, afhenti nýsköpunarverðlaun á Sky Bar, Center Hótel Arnarhvoli. Þetta er í 10. sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samtakanna.

Í stefnumótun SAF kemur meðal annars fram að stefnt skuli að því að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið enda byggi ferðaþjónustan á sterkri ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum. Auk þess segir að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki.