Það getur skipt framleiðslufyrirtæki eins og Sagafilm töluvert miklu fjárhagslegu máli að ná að selja framleiðsluréttinn á þætti til annarra landa. Eins og vb.is greindi frá í gærkvöldi hefur Sagafilm selt réttinn til að framleiða þætti byggða á þáttaröðinni Hannað fyrir Ísland til fjölda landa og eru fleiri samningar í bígerð. Þáttaröðin Hannað fyrir Ísland var sýnd hér á landi á Stöð 2 í fyrravor.

„Eftir að við gerðum fyrstu samningana þá komu nokkrar fréttir um þetta í erlendum miðlum og eftir það jókst áhuginn enn frekar. Núna eigum við í viðræðum um sölu á framleiðsluréttinum til tíu nýrra svæða,“ segir Kjartan Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri Sagafilm.

Kjartan Þór Þórðarson.
Kjartan Þór Þórðarson.

Rétturinn hefur verið seldur til allra Norðurlandanna, Írlands og Bretlands, en þættirnir verða framleiddir undir nafninu „Design for...“ og svo kemur nafn viðkomandi lands á eftir. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt fyrirtæki selur svokallaðan format-þátt, en í þann flokk falla t.d. þættir eins og Idol og Masterchef og Hannað fyrir Ísland.

Greiða hlutfall af framleiðslukostnaði til Sagafilm

„Þessi heimur skiptist í tvennt, annars vegar leikið efni og hins vegar annað skemmtiefni, sem svo skiptist í undirflokka. Þættir eins og Hannað fyrir Ísland eru svokallaðar raunveruleikakeppnir, en á ensku útleggst þetta sem competition entertainment. Maður verður að finna sínu efni pláss í einhverju þessara fyrirfram ákveðnu hólfa. Ef það tekst ekki þá er erfitt að selja efnið. Hver sjónvarpsstöð er með dagskrárstjóra sem bera ábyrgð hver á sínum flokki og ef þátturinn á hvergi heima þá vill enginn þeirra kaupa hann.“

Hvað varðar fjárhagsleg áhrif sölunnar á Sagafilm vill Kjartan forðast að gefa upp nákvæmar tölur. „Fyrir að fá að framleiða þætti sem þessa þá greiða menn ákveðið hlutfall af framleiðslukostnaðinum. Til að gefa ákveðna mynd af því hvaða þýðingu þetta hefur fyrir okkur í Sagafilm þá eru á Íslandi framleiddir á hverju ári þrír til fjórir format-þættir af þessu tagi. Við getum áætlað að veltan af þessari framleiðslu jafnist á við að selja format til tiltölulega lítils lands í útlöndum. Fari það svo að við seljum réttinn til Bandaríkjanna erum við að tala um allt aðrar stærðartölur hvað varðar tekjur fyrir okkur.“