Sagafilm, sem hefur sérhæft sig í framleiðslu sjónvarpsefnis í öllum flokkum, hefur keypt ráðandi hlut í breska auglýsingafyrirtækinu 2AM Film.

Að sögn Kristjáns Grétarssonar, framkvæmdastjóra Sagafilm, veltir 2AM Film um 1300 milljónum á ári og hjá fyrirtækinu starfa 20 manns.

"Fyrirtækið er leiðandi í auglýsingastarfsemi á Bretlandseyjum og nú nýlega var stofnuð ný sjónvarpsdeild innan fyrirtækisins, sem vinnur meðal annars verkefni fyrir bresku sjónvarpsstöðina BBC. Við stefnum að því að byggja starfsemi 2AM Film upp með sama fyrirkomulagi og Sagafilm hefur gert hér heima," sagði Kristján í samtali við Viðskiptablaðið.

Leikstjórar Sagafilm munu verða í samstarfi við 2AM Film. "Við munum senda leikstjóra frá okkur til að starfa með fyrirtækinu í Bretlandi og einnig munu breskir starfsmenn 2AM Film koma hingað til lands til að vinna fyrir SagaFilm hér heima," sagði Kristján.

Þetta er ekki fyrsta fjárfesting Sagafilm erlendis því fyrirtækið á 50% hlut í tékkneska kvikmyndafyrirtækinu Soft Pillow.