*

þriðjudagur, 19. október 2021
Innlent 18. janúar 2013 20:34

Sagafilm selur rétt á Hannað fyrir Ísland til útlanda

Nú þegar hefur rétturinn til að framleiða „Design for...“ þætti verið seldur til allra Norðurlandanna, Írlands og Bretlands.

Ritstjórn

Sagafilm hefur selt framleiðslufyrirtækjum víða um heim réttinn til að framleiða þætti sem byggðir eru þáttaröðinni Hannað fyrir Ísland. Íslensk framleiðslufyrirtæki eins og Sagafilm hafa um nokkurt skeið framleitt þætti sem byggðir eru á erlendum þáttum, eins og Idol og Masterchef, en þetta er í fyrsta skipti sem íslensk þáttaröð er seld með þessum hætti til útlanda.

Þegar þetta er gert er talað um format-þætti á vondri íslensku. Upphaflegi framleiðandinn setur þá saman ítarlegan upplýsinga- og reglupakka um þættina og kynnir hann fyrir hugsanlegum kaupendum. Þættirnri Hannað fyrir Ísland voru sýndir hér á landi síðasta vor og í þeim kepptust fatahönnuðir við að hanna bestu hugsanlegu útivistarflíkurnar.

Kjartan Þór Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri Sagafilm, segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem fyrirtækið reyni að setja saman og selja format-þátt, en afraksturinn í þetta skiptið sé góður. Nú þegar er búið að selja þáttinn til allra Norðurlandanna, Írlands og Bretlands og fleiri samningar eru í burðarliðnum. Í öllum tilvikum verða þættirnir framleiddir undir nafninu „Design for...“ og svo fylgir nafn viðkomandi lands.

Biblíuskrif eru fyrsta skrefið

Þetta er áhugaverður markaður, því það skiptir í raun ekki máli hvaðan góðar hugmyndir koma,“ segir Kjartan um markaðinn fyrir format-þætti. „Ef hugmyndin er góð, getur hún virkað á litlum markaði eins og Íslandi og allt upp í stærstu markaði eins og Bandaríkin.“

Hann segir að þeir format-þættir sem virka best séu framleiddir í þrjátíu til hundrað löndum. „Við pökkum verkefninu í þetta format-form. Í því felst að búa til markaðsefni til að kynna það og þá þarf að búa til svokallaða framleiðslubiblíu. Þar kemur fram allt regluverk þáttarins - hvað má og hvað má ekki gera. Þegar við framleiðum Idol hér á landi, svo dæmi sé tekið, þá eru alls konar hlutir sem við megum ekki gera og þeir koma fram í biblíunni. Þetta er gert til að vernda vöruna.“

Að þessari vinnu lokinni þarf að finna dreifingaraðila. „Í þessu tilviki er það Nordic World og við gerðum samning við þá um dreifingu á leikna efninu okkar og öðru efni frá okkur. Þeir tóku að sér að kynna formattið á þættinum fyrir um 20 framleiðslufyrirtækjum á Norðurlöndunum auk helstu sjónvarpsstöðva. Afrakstur þeirrar vinnu var að við seldum réttinn á öllum Norðurlöndunum og þá kynntum við þáttinn á sjónvarpsmessu í Frakklandi í haust og erum nú í viðræðum um sölu til Bandaríkjanna, Ástralíu og S-Ameríku.“