Nýr iðnaður er að verða til á Íslandi með nýtingu lækningajurta. Nú vinnur SagaMedica að því að fá vísindalega staðfestingu á virkni efna í SagaPro sem ætlað er að draga úr tíðum næturþvaglátum karlmanna.

Í klíníska rannsókn

Dr. Sigmundur Guðbjarnason lífefnafræðingur, einn af stofnendum SagaMedica ehf. og prófessor við Háskóla Íslands, segir gríðarlega möguleika felast í nýtingu þess sem í daglegu tali eru kallaðar lækningajurtir. Hefur hann ásamt starfsmönnum fyrirtækisins unnið markvisst að því að einangra og skilgreina virku efnin í lækningajurtunum til að framleiða ýmsar vörur. Með því að taka stefnu á útflutning hefur þó skort á skothelda vísindalega úttekt utanaðkomandi aðila á þeirra vinnu, en það er nú að verða að veruleika. Þannig er SagaMedica nú að hefja klíníska rannsókn á íslenskri náttúruvöru, SagaPro.

Rannsóknin sem hér um ræðir snýst um úttekt á náttúruvörunni SagaPro sem verið hefur á markaði í fimm ár. Varan hefur reynst afar vel við að draga úr tíðum næturþvaglátum karlmanna. SagaPro er unnið úr íslenskri ætihvönn en það er sú íslenska lækningajurt sem rannsóknarteymi SagaMedica hefur rannsakað hvað mest.

Brautryðjendastarf

„Þetta er brautryðjendastarf og í fyrsta sinn sem framkvæmd er á Íslandi klínísk rannsókn á náttúruvörum," segir Perla Björk Egilsdóttir, markaðsstjóri SagaMedica á Íslandi. Rannsóknin er unnin í samvinnu við tvo íslenska sérfræðilækna en Íslenskar Lyfjarannsóknir – Encode munu sjá um framkvæmd rannsóknarinnar.

Perla Björk segir að utanaðkomandi úttekt af þessu tagi skipti gríðarlega miklu máli varðandi framhaldið og möguleikana á að komast inn á markaði erlendis. Einnig til að fá heilbrigðissamfélagið til að meðtaka þessar góðu vörur.

„Þetta er græna gullið okkar. Nú er hágæða íslenskur náttúruvöruiðnaður rétt handan við hornið."

Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.