Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Lee C. Buchheit:

Að öllu óbreyttu mun íslenska ríkið fá væna summu úr afnámi gjaldeyrishafta, hvort sem er vegna stöðugleikaskatts eða -skilyrða. Hefur þú áhyggjur af því að peningunum verði varið til annars en að greiða niður skuldir ríkissjóðs?

„Í fyrsta lagi er mjög gott að þetta sé vandamál sem sé verið að glíma við. Í öðru lagi þá er þetta vandamál, af ýmsum ástæðum. Það stóð aldrei til að afnám gjaldeyrishafta yrði að féþúfu fyrir hið opinbera, en aftur á móti atvikað- ist það með þeim hætti.“

„Peningana ætti að nota með þeim hætti að það gagnist ekki fyrst og fremst núverandi ríkisstjórn, heldur að það sé með sanni hægt að segja: Þetta gagnast íslensku þjóðinni margar kynslóðir fram í tímann. Það að greiða niður skuldir ríkissjóðs er líklega einfaldasta leiðin til þess. Það lækkar ekki bara vaxtabyrði af núverandi lánum, heldur mun efnahagsreikningur ríkisins líta mun betur út, sem leiðir af sér bætt lánshæfismat, sem leiðir aftur af sér að lántökukostnaður framtíðarinnar lækkar. Það að borga niður skuldir ríkissjóðs leiðir til þess sem kalla mætti já- kvæðan spíral.“ (e. virtuous upward spiral)

Buchheit bætir við: „Sagan mun ekki fara mjúkum höndum um ríkisstjórn sem notar það sem innheimtist vegna afnáms gjaldeyrishafta, jafnvirði útgjalda ríkisins fyrir heilt ár, í skammgóð verkefni. Sem samfélag verða Íslendingar að átta sig á því sem er að fara að gerast. Þetta verður óvæntur fengur og það er mikilvægt af mörgum ástæðum að peningunum verði varið af skynsemi og í þágu allrar þjóðarinnar. Ég tel allar líkur á að ríkisstjórnin hyggist gera einmitt það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .