*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Fjölmiðlapistlar 7. október 2018 13:43

Sagan næstum öll

Hannes er umdeildur maður og umræðan um skýrsluna og fréttaflutningur um umræðuna hefur borið þess mikil merki.

Andrés Magnússon

Um þessar mundir eru tíu ár liðin frá bankahruninu örlagaríka, sem flestum ætti að vera í fersku minni. Samt er það nú svo, að menn muna það misvel, enn er alls ekki allt ljóst um tildrög þess og atburðarás, það getur farið nokkuð eftir pólitískri afstöðu manna og lífsskoðunum hvernig þeir vilja muna það og þar fram eftir götum. Það er þess vegna vel til fundið hjá fjölmiðlum að rifja ósköpin upp, fá fólk til frásagnar sem þá var í hringiðunni miðri og þar fram eftir götum. Jafnvel reyna að öðlast á því betri skilning, nú þegar að uppnámið er hjá og menn hafa betri yfirsýn yfir aðgerðir og afleiðingar.

En kannski hefur ekki nægur tími liðið enn. Það hefur að minnsta kosti gengið mjög misvel að rifja upp þessa nýliðnu sögu, sennilega vegna þess hvað margir mynduðu sér ákveðna afstöðu til hrunsins og eftirmála þess. Stundum snýst það um pólitíska afstöðu (eða arfleifð), jafnvel lífsskoðun, en eins má nefna að skoðanir á atburðunum voru einstaklega afdráttarlausar þegar á fyrstu vikunum og skoðanaskiptin einkenndust af áður óþekktri hörku um bæði menn og málefni. Það eimir enn eftir af því.

Stundum er haft á orði að sagan sé skrifuð af sigurvegurunum, en það er erfitt að benda á einhverja sigurvegara í bankahruninu og eftirmálum þess. Þeir hafa ekki heldur mikið verið að skrifa söguna. Frekar en aðrir raunar, því miðað við hvílíkur risaatburður hrunið var í samtímasögunni hefur það í raun furðulítið verið rannsakað og brotið til mergjar.

Skömmu upp úr hruni komu vissulega út ýmis rit um það, en þau voru fæst mjög burðug. Sum guldu fyrir það að skammt var liðið frá þessum atburðum, heimildir af skornum skammti (enda margt háð ströngum trúnaði) og helstu heimildamenn misfúsir til þess að veita viðtöl. Önnur, sennilegast fleiri, voru fremur ætluð til málflutnings eða til þess að lyfta undir tilteknar skoðanir, fyllilega nauðsynleg í umræðuna, en síður fallin til þess að vera góð heimild, hvað þá óyggjandi (eða fræðileg) niðurstaða.

Í umfjöllun liðinna daga hefur eitt og annað fróðlegt verið dregið fram, en fæst af því veldur straumhvörfum í söguskoðuninni. Svona að því marki sem hún er til. En það vekur þó eftirtekt, hvað það hefur mikið borið á ýmsum frásögnum þeirra, sem ekki reyndust þrautbestir á raunastund. Að því leyti má kannski spyrja hvort komið sé að því að sagan verði skrifuð af ósigurvegurunum.

Að öllu gamni slepptu er hins vegar vel rétt að benda á að minna hefur farið fyrir því að rifja upp hitt, sem vel var gert á þessum erfiðu tímum í sögu þjóðarinnar, það sem lukkaðist þrátt fyrir allt. Því varla verður litið hjá því hvað Íslendingar komust hratt upp úr þessum krappa öldudal og náðu sér aftur á strik. Í efnahagslegum skilningi að minnsta kosti, þó það megi enn efast um að þjóðin hafi jafnað sig á hinu andlega áfalli hrunsins. Það má sjá á djúpri skautun í stjórnmálaafstöðu, harkan í þjóðmálaumræðu er síst í rénun og svo mætti áfram telja. En ef til vill eru ekki aðeins einhverjar séríslenskar ástæður fyrir því frekar en bankahruninu. Það átti sér stað í alþjóðlegri fjármálakreppu, sem fæst önnur lönd hafa náð sér upp úr á sama hátt og Ísland, en þau hafa ekki síður átt við að stríða félagslega ólgu, pólitískt umrót og óvissu.

Að undanförnu hefur fjölmiðlarýnir skemmt sér við að glugga í helstu samtímaheimildir eftirhrunsins. Miðað við glundroðann og geðshræringuna í samfélaginu á þeim tíma má e.t.v. segja að fjölmiðlar hafi bara staðið sig furðuvel, svona almennt og yfirleitt. En það mátti líka finna að fjölmörgu. Um sumt voru þeir allt of hrifnæmir (að ekki sé sagt meðvirkir), af helstu fréttum má greina að þeir voru mjög háðir stöku heimildarmönnum, sem hugsanlega stóðu málunum of nærri, hinir pólitísku þræðir liggja þar þvers og kruss, og stundum voru þeir eiginlega forvirkir í fréttaflutningi fremur en að fella sig við hið hefðbundna hlutverk sitt við að finna, staðfesta og segja fréttir.

Allt er það umhugsunarvert og hugsanlega er tímabært fyrir fjölmiðla að fara einnig yfir hvernig þeir stóðu sig á þessum dögum, vikum, mánuðum og árum. Það má draga af því margvíslega lærdóma. Og án þess að koðna í sjálfsgagnrýni eða fordæmingu, þetta voru miklir óvissutímar og rétt að forðast of mikla dómhörku um það allt.

Í þessu samhengi má drepa eilítið á nýbirta skýrslu dr. Hannesar H. Gissurarsonar prófessors um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins árið 2008, sem hann vann fyrir fjármálaráðuneytið. Hannes er umdeildur maður og umræðan um skýrsluna og fréttaflutningur um umræðuna hefur borið þess mikil merki. Efni hennar síður. Af því að Hannes er til hægri við miðju og hefur dálæti á Davíð Oddssyni lágu margir ekki á þeirri skoðun að þessi umritun sögunnar í þágu Sjálfstæðisflokksins og svo framvegis væri alveg ómöguleg. Sem aftur bar vitni að fæstir höfðu þeir lesið skýrsluna áður en þeir opnuðu munninn. Skoðun skýrsluhöfundar er ljós, en það er efni skýrslunnar og heimildir, sem meiru varða. Þar er fjallað um hina erlendu áhrifaþætti, hinn íslenski vettvangur skiptir þar einfaldlega litlu máli.

Hitt er kannski meira umhugsunarefni hvers vegna stjórnvöld eða fræðasamfélagið hafði ekki gengist fyrir slíkri skýrslugerð miklu fyrr, en dr. Hannes átti frumkvæði að gerð hennar. Við blasir að öll heimildaöflun meðal þeirra, sem hlut áttu að máli, verður örðugri með hverju árinu sem líður og minni þeirra brigðulla. Og hugsanlega hefðu fjölmiðlar átt að eiga þar meira frumkvæði.

Fyrst minnst er á upprifjun sögulegra viðburða er rétt að minnast á Geirfinnsmálið, en á dögunum var loks bundinn endi á stóran þátt þess, þó enn megi finna lausa enda. Margt hefur verið rætt um íslenska réttvísi, samfélagsbreytingar í upphafi áttunda áratugar liðinnar aldar o.s.frv., en minna hefur verið rætt um frammistöðu fjölmiðla í málinu. Fjölmiðlar tóku miklum breytingum á þessum árum og það réði vafalaust talsverðu um ákafann í málinu hvernig fjölmiðlar fjölluðu um það. Það fer hugsanlega að verða tímabært að ræða það líka.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is