Bandaríski leikarinn Robert Downey Jr. ætlar ekki að fara í búning Járnmannsins í hlutverki iðnjöfursins Tony Stark og leika í fjórðu kvikmyndinni um baráttu hans við skúrka og önnur illmenni. Engu skiptir þótt leikur hans í þremur myndum hafi skilað honum svo stórum launatékkum að síðastliðin tvö ár hefur Downey talist til launahæstu leikara í heimi.

Robert Downey Jr. var í viðtali við kvikmyndatímaritið Variety um nýjustu mynd sína, The Judge. Í viðtalinu sagði hann engin drög á teikniborðinu að nýrri mynd um Járnmanninn.

Síðasta myndin var frumsýnd í í fyrra og halaði hún inn rétt rúmum milljarði dala í kassann, jafnvirði tæpra 120 milljarða íslenskra króna, og stefnir hraðbyr að því að verða á meðal þeirra fimm kvikmynda sem hafa skilað mestu í kassann í kvikmyndasögunni. Myndirnar þrjár og Avengers-myndirnar hafa skilað samtals 3,9 milljörðum dala í vasa framleiðenda. Það jafngildir rúmum 460 milljörðum íslenskra króna eða sem nemur rúmlega fjórðungi úr landsframleiðslu Íslands á einu ári.

En þótt fjórða myndin um Járnmanninn sé ekki í pípunum þá fer Downey Jr. allavega einu sinni í hlutverk Tony Stark í næstu Avengers-myndinni sem mun heita Age of Ultron og stefnt er á að frumsýna næsta vor.