Íslenska fyrirtækið SagaMedica skrifaði nýlega undir samning við Douglas Pharmaceauticals, stærsta lyfjafyrirtæki Nýja-Sjálands um sölu á SagaPro þar í landi. Jafnframt eru samningaviðræður við önnur samstarfsfyrirtæki langt kominn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SagaMedica.

Á síðustu árum hefur fyrirtækið byggt upp tengsl og sóknarmöguleikar hafa stóraukist á erlendum mörkuðum. Í fréttatilkynningunni segir að ör vöxtur sé á alþjóðlegum markaði fyrir náttúrulyf og aðrar náttúruvörur. Í framhaldinu verður lögð aukin áhersla á markaðssetningu erlendis þar sem vörur SagaMedica hafa nú þegar náð góðri fótfestu á markaði innanlands.

SagaPro er náttúruvara sem unnin er úr íslenskri hvönn. SagaPro hefur verið á markaði síðan 2005 og er eitt mest selda bætiefni í íslenskum apótekum í dag. Frá stofnun hefur félagið verið leiðandi í íslenskum náttúruvöruiðnaði þar sem lögð er áhersla á nýtingu íslensku hvannarinnar í framleiðslu.

Fyrirtækið fékk veglegan styrk frá Tækniþróunarsjóði sem fyrirtækið hefur notað í umfangsmikla vinnu sem snýr að endurmörkun vörunnar SagaPro fyrir Evrópu og Ameríkumarkað. Er samningurinn við Douglas Pharmaceauticals afrakstur þeirra vinnu.