Satya Nadella forstjóri Microsoft hefur formlega beðið afsökunar á ummælum sem hann lét falla á ráðstefnu í gær um stöðu kvenna í tæknigeiranum. Í pallborðsumræðu á Grace Hopper ráðstefnunni sem haldin var í gær var hann spurður um hvaða ráð hann myndi veita konum sem kunna illa við að biðja um launahækkun.

Hann svaraði því að „þetta snerist í raun og veru ekki um að biðja um launahækkun, heldur að hafa vit og trú á því að kerfið muni bjóða þér upp á bestu kjörin eftir því sem á líður.“ Að auki sagði hann að það að biðja ekki um launahækkun gæfi „gott karma“ og gæti veitt konum ákveðna „ofurkrafta“ sem karlar hefðu ekki.

Í bréfi sem Nadella sendi starfsmönnum Microsoft í gær segist hann hafa svarað spurningunni algjörlega vitlaust. Þá sagði hann að það rétta í stöðunni væri fyrir konur að biðja um launahækkun.