Koo Sung-hoon, Framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækisins Samsung Securities hefur sagt af sér eftir að fyrirtækið þurfti að sæta refsiaðgerðum og sekt af hálfu fjármálaeftirlits Suður-Kóreu. Ástæðan voru mistök starfsmanns sem gaf út 2,8 milljarða hlutabréfa til um það bil 2000 starfsmanna, í stað þess að greiða út 1000 won, tæpar 100 krónur, á hlut í arð. Þetta kemur fram í umfjöllun Bloomberg um málið.

Andvirði hlutabréfanna á markaðsvirði var samtals yfir 11 þúsund milljarðar króna. Þegar mistökin komu í ljós var fyrirtækinu skipað að víkja Sung-hoon frá störfum í 3 mánuði, það sektað um tæpar 14 milljónir króna, og verðbréfaviðskiptadeild þess bannað að taka við nýjum viðskiptavinum í hálft ár.

Þá voru 13 starfsmenn sektaðir um tæpar 3 milljónir króna fyrir að hafa selt bréfin þrátt fyrir að hafa vitað fullvel að útgáfa þeirra voru mistök. 8 þeirra hafa einnig verið ákærðir fyrir fjárdrátt og svik.