Upplýsingar um hælisleitendur sem lak úr innanríkisráðuneytinu voru ósönn og ærumeiðandi, að sögn Valgerðar Bjarnadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Hún var málshefjandi í sérstökum umræðum um hælisleitendur á Alþingi í dag. Þar fór hún í stuttu máli yfir stöðu hælisleitenda hér á landi. Valgerður og aðrir stjórnarandstæðingar á þingi dvöldu lengi við lekamálið svokallaða. Málið varðar leka á óformlegu minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu fyrir jól um málefni Tony Omos.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra svaraði Valgerði því til að upplýsingarnar hefðu getað komið víða að og taldi upp þær stofnanir sem safni upplýsingum um hælisleitendur hér á landi. Meiri líkur séu á að upplýsingarnar hafi komið annars staðar frá en úr innanríkisráðuneytinu, þar hafi allt verið fínkembt án þess að það hafi nokkru skilað.

„Iinnanríkisráðuneyti fær yfir 5.000 mál á ári. Miðað við það má geta að starfsmenn sinni störfum sínum af mikilli vandvirkni. Ljóst er þó að miðað við aðgengi að rafrænum gögnum þá þarf stjórnsýslan að tryggja stöðuga vakt,“ sagði Hann Birna.

Hlusta má á umræðuna á vef Alþingis .