„Ég hef velt fyrir mér í sumar af hverju í ósköpunum við viljum loka hurðinni og slíta viðræðum. Ég hef starfað mest mitt líf í viðskiptalífinu. Ég hef aldrei upplifað að það hafi talist góður bisness að neita sér um möguleika,“ sagði Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, í umræðum um Evrópumál á Alþingi í dag.

Það var Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sem gaf munnlega skýrslu um Evrópumál á þinginu. Hann sagði aðildarumsókn Íslands að ESB ekki hafa verið afturkallaða og engu verið slitið þótt búið sé að leysa upp samninganefnd Íslands og hópa sem tengist viðræðunum.

Merkel enginn galgopi

Óttarr fagnað yfirlýsingu Gunnars Braga, sagði Evrópusambandið samráðsvettvang sjálfstæðra ríkja og rifjaði upp orð Angelu Merkel, kanslara Þýskalands og túlkaði þau sem svo að Evrópa sé velferðar- og mannréttindaheimsálfu þar sem lagt er upp úr samfélagi sem sé samhljóma því samfélagi sem horft er á hér. „Hún er sjaldan kallaður málefnalegur galgopi,“ sagði Óttarr.

Hann bætti við:

„Ég hef oft gantast við vini mína í Framsóknarflokknum, sérstaklega á ferðum í Brussel, að það sé skýrt að Evrópusambandið sé stærsta samvinnufélag í heimi.“