Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, beri að koma fyrir dóm og gefa vitnaskýrslu í máli Pálma Haraldssonar á hendur Glitni hf. Samkvæmt dómi Hæstaréttar er ástæðan sú að skýringar embættisins í bréfum á meintu samstarfi þess við slitastjórn Glitnis í þágu sameiginlegra hagsmuna þeirra eru ekki taldar svara spurningum sem eru uppi í máli Pálma og Glitnis.

Í kvaðningu Pálma til Ólafs Þórs kemur fram að í spjallþætti Egils Helgasonar, Silfri Egils, hafi Eva Joly, ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara, fullyrt að embættið ætti í samstarfi við skilanefnd Glitnis um að „endurheimta fé föllnu bankanna,“ en rétt væri að beita öllum tiltækum ráðum til þess. Málsókn slitastjórnar Glitnis á hendur Pálma fyrir dómstól í Bandaríkjunum hafi meðal annars verið afrakstur þessa samstarfs samkvæmt Evu.

Í framhaldinu hafi lögmaður Pálma farið þess á leit að Ólafur Þór myndi skýra fyrir dómi við hvað væri átt með því samstarfi og í hverju það hefði falist. Ólafur Þór veitti skýringu í bréfum sem embættið sendi lögmanni Pálma þar sem fram kemur að engum samstarfssamningi væri til að dreifa á milli embættisins og Glitnis banka. Í bréfinu kom einnig fram að Eva Joly hefði enga heimild til að gera samninga fyrir hönd embættisins við einkaaðila um kyrrsetningu eigna sakborninga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .