Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra stýrði í dag fyrir hönd EFTA/EES-ríkjanna fundi EES-ráðsins í Brussel þar sem Ísland gegnir nú formennsku í fastanefnd EFTA. Utanríkisráðherra Litháens, Linas Linkevicius, stýrði fundinum af hálfu ESB en Litháen er í formennsku ráðherraráðs ESB síðari hluta árs 2013. Einnig sátu fundinn Vidar Helgesen, ráðherra EES- og ESB-mála í Noregi, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, fulltrúar aðildarríkja ESB, framkvæmdastjórnar ESB, utanríkisþjónustu ESB, EFTA-skrifstofunnar og Eftirlitsstofnunar EFTA.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að meginefni fundarins var staða og framkvæmd EES-samningsins. Af Íslands hálfu lýsti utanríksráðherra því yfir að styrkja bæri þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og að bæta þyrfti innleiðingu EES-gerða. Lagði hann áherslu á mikilvægi góðs samstarfs við ESB til þess að þetta markmið mætti nást og kallaði eftir virkri þátttöku ESB við að leysa erfið mál sem sum skapa stjórnarskrárbundin vandamál fyrir Ísland.

Gunnar Bragi tók upp á fundinum fríverslunarviðræður ESB við Bandaríkin og undirstrikaði að EFTA/EES-ríkin hefðu beina hagsmuni af niðurstöðu viðræðnanna. Lagði hann áherslu á mikilvægi virks upplýsingaflæðis og skoðanaskipta við EFTA/EES-ríkin á öllum stigum þeirra.