„Ég hef aldrei heyrt annað eins auma væl hjá forystumanni í pólitík,“ sagði Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi velferðarráðherra. Hann gagnrýndi Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins, harkalega á Alþingi í dag eftir að Sigmundur hafði mælt fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimla á Íslandi. Sigmundur sagði tillöguna einhverja umfangsmestu aðgerð í þágu heimilanna í Evrópu og hugsanlega í heiminum öllum.

„Þetta er á heimsmælikvarða,“ sagði Sigmundur. Hann sakaði stjórnarandstæðinga um að ætla að standa í vegi fyrir aðgerðunum og hafa lítið gert í tíð fyrri ríkisstjórnar á síðastliðnum fjórum árum.

Mikill hroki

Guðbjartur brást hinn versti við ásökunum Sigmundar og sagðist ekkert botna í honum. Hann sagði Sigmund hljóta að vera einn misskildasta mann Íslandssögunnar. Það sýni m.a. árás hans á fjölmiðla sem Sigmundur hafi talið misskilja sig.

„Hann talar eins og enginn hafi gert nokkuð af viti áður en hann kom. Slíkur er hrokinn. Mér finnst það miður,“ sagði Guðbjartur og ítrekaði að stjórnarandstaðan styðji aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

„Við erum að vinna hér undir mikilli pressu. Þingið byrjaði á því að forseti Alþingis sagði mál þurfa vandaða umfjöllun. Á sama tíma er umsagnarfrestur tveir til þrír dagar. Við höfum ekkert lagst á móti því að vinna daga og nætur og setið fram eftir kvöldum. En þegar við ætlum að bæta mál og taka þátt í umræðum þá kemur forsætisráðherra og segir málið talað niður. Mér finnst þetta vond byrjun hjá ríkisstjórn sem talar um stjórn sátta,“ sagði hann og fór að því loknu ítarlega yfir skuldavanda heimilanna. „Ég er ekki að tala þetta niður,“ sagði hann.