„Hvert er förinni heitið? Hvað kallast sá áfangastaður? Hvað heitir það land?,“ spurði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartar framtíðar í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.  Guðmundur gagnrýndi fjárlagafrumvarpið sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti og lagði fram á Alþingi í gær. Hann sagði mikið hafa verð gert eftir hrunið til að marka stefnu þjóðarskútunnar fram á veginn.

Í poka á leið út í óvissuna

„ Að sjálfsögðu þarf alltaf að taka stöðuna, líta á áttavitann. Endurmeta leiðina. En það sem veldur mér áhyggjum núna er það, að ríkisstjórnin er á allt of mörgum sviðum að hætta við það sem vel hefur verið ígrundað og áætlað,“ sagði Guðmundur sem hóf ræðu sína á umfjöllun um Reisubók séra Ólafs Egilssonar frá 17. öld en hann var prestur í Vestmannaeyjum  árið 1627. Hann var ásamt fjölskyldu sinni numið á brott í Tyrkjaráninu. Þegar hann var leystur úr haldi var hann staddur í Alsír.

„Þá var ekkert annað að gera en að ganga heim. Við tók margra mánaða gönguför upp Evrópu endilanga sem Ólafur lýsir af fádæma æðruleysi, og einlægni, í bók sinni. Það sem sló mig við frásögn Ólafs var þetta:  Hann vissi hvert förinni var heitið. Sérhvert skref var skref í rétta átt. Hann gekk því yfir lönd Evrópu þar til hann kom aftur heim til Eyja.  Það er einmitt þetta sem er svo mikilvægt í kjölfar óvæntra áfalla, ef maður lendir í erfiðum kringumstæðum:  Að vita hvert förinni er heitið.  Maður getur látið ótrúlegustu hluti dynja á sér ef maður veit hvert leiðin liggur og maður hefur trú á ferðinni og áfangastaðnum. [...] Að sjálfsögðu þarf alltaf að taka stöðuna, líta á áttavitann. Endurmeta leiðina. En það sem veldur mér áhyggjum núna er það, að ríkisstjórnin er á allt of mörgum sviðum að hætta við það sem vel hefur verið ígrundað og áætlað,“ sagði Guðmundur.

Hann hélt áfram:

„En hvar stöndum við núna?  Mig grunar að eftir alla þessa vinnu, líði sumum núna dálítið eins og þeir hafi verið settir í poka upp á þilfar á ókunnugu skipi og séu á leiðinni eitthvert út í óvissuna.“