Steingrímur J. Sigfússon segir ljóst af skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var fyrir helgi að fjárlög síðustu ríkisstjórnar fyrir árið standi á traustum grunni og greiðslujöfnuðum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hann sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag telja fjárlög hafa staðist nokkurn vegin ef núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefði ekki gert hana verri, s.s. með því að hækka ekki skatt á ferðaþjónustuna.

Þá sakaði Steingrímur forsvarsmenn stjórnarflokkanna um að hafa ruglað saman hugtökum á borð við greiðsluafkomu og rekstrarafkomu og skrifaði það á reynsluleysi þeirra í stjórnmálum þegar þeir boðuðu til blaðamannafundar og sögðu halla á fjárlögum verða í kringum 30 milljarða króna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vísaði fullyrðingum Steingríms á bug og kallaði stefnu fyrri ríkisstjórnar í skattamálum hundalógík, þ.e. að hægt sé að auka tekjur ríkissjóðs með skattahækkunum. Hann rifjaði upp að Katrínu Júlíusdóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafi á endanum ekki hugnast að hækka skatta á ferðaþjónustu enda gæti slíkt komið niður á greininni og þar með dregið úr tekjum.

Sigmundur ítrekaði að hallareksturinn væri samkvæmt þeim gögnum sem fyrir lágu í fjármálaráðuneytinu þegar ný ríkisstjórn tók við að hallareksturinn verðir margfaldur á við það sem fjárlög gerðu ráð fyrir.