„Ég kom ekki að þessari framkvæmd á neinn hátt,“ segir Ágúst Guðmundsson, bróðir Lýðs Guðmundssonar. Fréttavefur Vísis hefur fjallað ítarlega í dag um aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli embættis sérstaks saksóknara á hendur þeim Lýð og lögmanninum Bjarnfreði Ólafssyni í tengslum við hlutafjárhækkun Exista veturinn 2008. Hlutafé félagsins var þá aukið um 50 milljarða og greiddi félagið BBR einn milljarð fyrir það.

BBR var í eigu bræðranna Lýðs og Ágústar. Þeir voru jafnframt helstu eigendur Bakkavarar í gegnum Exista. Lýður var stjórnarformaður Exista en félagið var svo helsti eigandi Kaupþings. Lýður var svo forstjóri Bakkavarar.

Fram kemur á Vísi að Ágúst hafi ekki þekkt málavöxtu og gæti hann því ekki varpað ljósi á málið.

Málið gegn þeim Lýð og Bjarnfreði var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í október í fyrra. Þeir eru þar ákærðir fyrir brot gegn hlutafélagalögum fyrir að hafa vísvitandi brotið gegn ákvæðum um greiðslu hlutafjár með því að greðia minna en nafnverð fyrir hlutaféð í Exista.