Fjölmiðlar, lögreglumenn og almenningur víðsvegar um heim veltir því nú fyrir sér hvernig Carlos Ghosn tókst að sleppa úr stofufangelsi sem honum var haldið í af japönskum stjórnvöldum. Ghosn dúkkaði skyndilega upp í Líbanon á næstsíðasta degi ársins 2019 en flótti hans þykir hinn allra vandræðalegasti fyrir japönsk yfirvöld.

Hinn 65 ára gamli Ghosn er fæddur í Brasilíu en er einnig með franskt og líbanskt vegabréf. Á árum áður var hann forstjóri Michelin, síðar æðsti maður Renault keðjunnar, þar sem hann reisti félagið úr rústum sínum, og að endingu innsti koppur í búri í bandalagi Renault, Nissan og Mitshubishi. Ghosn var þekktur fyrir að koma inn í félög sem voru í talsverðu basli og redda málunum. Fékk hann af þeim sökum viðurnefnin „Le Cost Killer“ og „Mr. Fix It“.

Í apríl 2017 hætti Ghosn sem forstjóri Nissan en er þó enn stjórnarformaður félagsins. Um átján mánuðum síðar var hann handtekinn í Japan grunaður um skattaundanskot og að hafa nýtt hluta af sjóðum Nissan sem sína eigin. Einnig var hann grunaður um að hafa fært persónulegt tap sitt yfir í bækur Nissan, alls um 30 milljónir dollara. Skömmu síðar var honum vikið úr stjórn Nissan og síðar úr stjórn Renault.

Eftir handtöku Ghosn í nóvember 2018 var honum sleppt gegn greiðslu tryggingar. Í apríl á síðasta ári var hann hins vegar handtekinn á nýjan leik, í raun í fjórða skipti. Sakarefnið var sem áður að hann hefði nýtt sjóði Nissan sem sína eigin. Talið er að Ghosn hafi hagnast um 5 milljónir dollara á rúmlega þriggja ára tímabili með því að færa fé frá dótturfélagi Nissan, til félags í viðskiptum við Nissan en það félag millifærði fjármunina síðan í einkahlutafélag forstjórans.

Segist hafa flúið óréttlæti

Síðan þá hefur forstjórinn fyrrverandi verið í haldi japanskra yfirvalda. Fyrst um sinn var hann í hefðbundnu gæsluvarðhaldi en seinna meir náðust samningar um að hann skildi vera í stofufangelsi meðan málið væri til meðferðar hjá dómstólum. Samkvæmt samkomulaginu skyldi Ghosn vera með ökklaband með staðsetningarbúnaði, ákveðið margar myndavélar í íbúð hans fylgdust með hverju skrefi hans og öryggisverðir, valdir af Ghosn en samþykktir af stjórnvöldum, vöktuðu íbúðina einnig.

Þrátt fyrir það tókst forstjóranum fyrrverandi að komast frá Japan og til Líbanon. Fregnir af hvarfi hans voru sagðar á næstsíðasta degi síðasta árs og síðar staðfestar af talsmanni Ghosn í New York. Í yfirlýsingu frá talsmanninum að „Ghosn muni ekki lengur vera haldið í gíslingu af spilltu dómskerfi Japan þar sem sekt sé ætluð, mismunun sé hömlulaus og mannréttindi krossbrotin“. Sagði hann enn fremur að Ghosn hefði ekki flúið réttvísina, þvert á móti hefði hann „komist undan óréttlæti og pólitísk réttarhöld.“

Junichiro Hironaka, Carlos Ghosn
Junichiro Hironaka, Carlos Ghosn
© epa (epa)

Junichiro Hironaka, einn verjenda Ghosn, kom af fjöllum aðspurður um flóttann.  VB MYND/EPA

Eftir stendur spurningin um það hvernig maðurinn komst úr landi. Vitað er að Ghosn hafði haldið veislu í íbúð sinni nýverið þar sem hljómsveit lék fyrir dansi. Talið er að honum hafi með komið fyrir í hljóðfærakassa og laumað þannig framhjá vörðum og myndavélum. Honum á að hafa verið rúllað út á flugvöll í Osaka þar sem einkaflugvél beið flóttamannsins. Þaðan var flogið til Tyrklands og þaðan áfram til Líbanon. Samkvæmt opinberum gagnagrunnum í Japan er ekkert sem bendir annars en að Ghosn sé enn í Japan, í það minnsta hafa þeir ekki að geyma skráningu um að hann hafi yfirgefið landið. Staðreyndin er þó sú að hann er nú staddur í Líbanon.

Við handtökuna voru öll vegabréf hans gerð upptæk en samkvæmt japönskum lögum þurfa erlendir ríkisborgarar öllum stundum að hafa hjá sér vottuð skilríki. Samkvæmt stofufangelsissamkomulaginu var franskt vegabréf Ghosn í tryggilega læstum öryggisskáp á heimili hans og átti aðeins einn lögmaður hans að hafa lykilnúmerið að skápnum. Verjendateymi hans í Japan neitar alfarið að hafa átt hlut í máli og kom Junichiro Hironaka, einn af lögmönnum hans, algjörlega af fjöllum þegar hann var spurður um málið .

Forsetinn tók á móti honum

Móttökunefndin sem beið Ghosn við komuna til landsins var ekkert slor en heimildir Reuters herma að sjálfur forsetinn, Michel Aoun, hafi tekið á móti honum í Beirút. Sömu heimildamenn herma að flóttafléttan sjálf hafi verið í undirbúningi undanfarna þrjá mánuði og verið hin snjallasta.

Eiginkona Ghosn var spurð um smáatriði í tengslum við flóttann og sagði hún að sagan um hljóðfærakassann sé þvættingur. Vildi hún hins vegar ekki fara nánar út í þá sálma. Einkafyrirtæki sá um skipulagningu og framkvæmd flutningsins og vissu ekki margir af planinu.

Áætlað var að aðalmeðferð í máli saksóknara gegn Ghosn átti að fara fram í apríl á þessu ári en útlit er fyrir að ekkert verði af því. Enginn framsalssamningur er í gildi milli Líbanon og Japan og líbönsk yfirvöld hafa gefið það út, að svo stöddu hið minnsta, að þau hafi ekki í hyggju að framselja flóttamanninn.

Á meðan utanríkisráðuneyti landanna ráða ráðum sínum hafa stjórnvöld í Japan og Tyrklandi hafið rannsókn á því hvernig þetta gat gerst. Í morgun handtóku Tyrkir sjö einstaklinga , þar af fjóra flugmenn, sem grunaðir eru um að hafa átt þátt í smyglinu á fjárglæframanninum. Þá réðust stjórnvöld í Japan í húsleit á heimili Ghosn í morgun til að leita að munum sem gætu upplýst málið.