Leyfisveitingaumferð norska olíu- og orkumálaráðuneytisins lauk nú fyrir helgi með úthlutunum á leitarleyfum til olíufélaga sem um sóttu.

Sagex Petroleum, sem er að hluta í eigu Linda Resources hf., hlaut slíkt leitarleyfi. Vonir eru bundnar við umrætt leyfi þar sem olía hefur fundist á tveimur aðliggjandi svæðum. Jafnframt fylgir leyfinu skylda til að bora innan fjögurra ára, en slík skylda fylgir eingöngu leyfum þar sem góðar vonir eru til að olía finnist. Sagex sótti um leyfið í samstarfi við austurríska olíufélagið OMV og á hvort félag 50% í leyfinu.

Sagex Petroleum ASA á aðild að tveimur öðrum leitarleyfum í Noregi, auk tveggja leyfa í Færeyjum, eins í Bretlandi og eins í Danmörku. Jafnframt stefnir Sagex að umsókn um leitarleyfi á Drekasvæðinu í lögsögu Íslands í gegnum dótturfélag sitt, Geysi Petroleum hf.

Lindir Resources hf. er dótturfélag Straumborgar ehf. og sérhæfir sig í fjárfestingum á sviði orku og náttúruauðlinda.