Olíufyrirtækið Sagex Petroleum hefur lokið fjármögnun fyrir almenna starfsemi og olíuleitarverkefni sem fyrirhuguð eru á næstu árum, en félagið hyggst hefja rekstur á olíuborpalli á Causeway svæðinu í Norðursjó seint á næsta ári.

Íslenska fjárfestingafélagið Lindir Resources, sem er í eigu Jóns Helga Guðmundssonar, er stærsti hluthafinn í Sagex Petroleum með um 20% eignarhlut.

Gunnlaugur Jónsson er framkvæmdastjóri Linda og segir hann að félagið hafi yfir átta olíuleitarleyfum að ráða; tvö í Bretlandi, þrjú í Noregi, eitt í Danmörku og tvö í Færeyjum.

„Á næsta ári verður svo vonandi klárað að úthluta leyfum fyrir Drekasvæðið svokallaða í íslensku landhelginni. Í ljósi frumrannsókna bindum við miklar vonir við svæðið þannig fljótlega í framhaldinu geta vonandi frekari jarðfræðirannsóknir hafist,” segir Gunnlaugur í samtali við Viðskiptablaðið

Samtals nam fjármögnunin 2,1 milljörðum íslenskra króna og voru bandarískir og svissneskir fagfjárfestar og íslenskir einkafjárfestar stærstu þátttakendurnir.

Fjármögnunin var í höndum Landsbankans, Trioostone Capital, og First securities og að sögn Jóns Þ. Sigurvinssonar hjá Landsbankanum bættust nokkrir íslenskir fjárfestar í hópinn.