Dansk- íslenska viðskiptaráðið efnir til kvöldfundar á efri hæð veitingastaðarins Kaffi Sólon í Bankastræti og verður fundurinn í kvöld kl. 20.00. Yfirskrift fundarins er Sögur frá Köben og verða sögur forsvarsmanna smærri fyrirtækja sem hafa haslað sér völl í Kaupmannahöfn á eigin forsendum í öndvegi. Hver er reynsla þeirra af rekstri fyrirtækis í öðru landi, er mikill munur á Íslandi og Danmörku þegar að rekstri fyrirtækis kemur og í hverju felst hann helst.

Þeir sem segja sögur sínar eru Lárus Jóhannesson framkvæmdastjóri 12 Tóna Reykjavík/Kaupmannahöfn og ber erindi hans yfirskriftina: ?Getur þú gert þetta á morgun? Nei en ætti að vera klárt eftir 5 vikur!?

Sömuleiðis mun Friðrik Weishappel, eigandi Laundromat kaffihúsasamstæðunnar í Kaupmannahöfn halda erindi og verður yfirskriftin: ?Fékk sjokk þegar útibússtjórinn sagði mér að bankinn væri ekki þjónustustofnun!?

Fyrir þá fjölmörgu Íslendinga sem hafa áhuga á viðskiptum við frændu okkar Dani er sjálfsagt að mæta. tekið er fram að allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.


Fundarstjóri er hinn þekkti Kristján Kristjánsson hjá FL Group sem talar ágæta dönsku.