Hendrik Egholm segir ekki koma sér á óvart að blaðamaður hafi ekki fyllilega áttað sig á hve mikill hluti starfsemi Skeljungs er utan landsteinanna. „Fáir gera það. Ég held að íslenski viðskiptaheimurinn átti sig ekki fyllilega á því að Skeljungur er ólíkur hinum olíufélögunum sem við keppum við. Við höfum dreift áhættunni betur og munum njóta þess að geta lært af Færeyingum og njóta þeirrar landfræðilegu stöðu sem við höfum vegna þessa.“

Hvar sérðu Skeljung eftir fimm eða tíu ár? „Markaðurinn er að þróast. Ef við tvinnum saman gömlu stjórnendurna sem segja að ekkert breytist og þá allra framsýnustu sem segja að allt sé að breytast á næstu tveimur árunum, þá held ég að það sé ljóst að skipaeldsneyti verður mjög mikilvægt fyrir okkur í mörg ár í viðbót og við förum ekki leynt með að við erum að stækka við okkur á þessu sviði. Við erum nú að mínu mati best til þess fallin að selja skipum olíu á Norður-Atlantshafi og við ætlum að stækka við þetta. Við ætlum að vera enn meira leiðandi en við erum nú þegar. Ef þú horfir til eldsneyti á bíla þá eru rafbílar í þróun. Þar er mikil umræða um rafhlöðurnar. Sumir segja að þær séu að verða minni og betri á meðan aðrir benda á að rafhlaðan í Teslu er 800 kíló og þú þarft að grafa þig í gegnum hálft fjall á Grænlandi til að finna liþíum í þær.

Ég er sannfærður um að rafbílar muni hafa meira og meira vægi í framtíðinni. Ef þú á hinn bóginn horfir á vetni þá eru vetnisbílar mjög fyrirferðarmiklir í Asíu. Kosturinn við vetni er að þú getur nýtt vindmyllur sem standa óhreyfðar alla nóttina til að búa til vetni. Það er gert til dæmis á Shellstöð í Hamborg í Þýskalandi. Þar eru vindmyllur sem framleiða vetni með því að nýta umframorku á nóttunni. Geymsla á raforku er ein helsta áskorunin sem vindmyllur standa frammi fyrir. Þarna ertu kominn með fullkomna geymslu. Þú framleiðir bara vetni á nóttunni. Annar kostur við vetni er að það er hægt að dæla því jafnhratt á bíla og hefð­ bundnu eldsneyti, ólíkt því sem er með rafbíla. Vetnið hefur þann kost að þú þarft ekki að breyta hegðun þinni á neinn hátt, þú bara heldur áfram að gera það sem þú hefur alltaf gert. Gallinn við vetni er hins vegar að fyrirtækin í Asíu, til dæmis Toyota og Hyundai, leiða þennan markað og þau vilja halda vetninu á Asíumarkaði. Þetta verður líka hluti af framtíðinni en ég held að þetta muni ekki gera útaf við rafbíla. Ég trúi að þetta tvennt fari saman.“

Fjölskylda Hendriks er í Færeyjum og hann fer milli landanna, og víðar, eftir því sem þörf krefur. Hann segir vini sína hafa gert grín að því að nú þegar hann væri með annan fótinn á Íslandi þyrfti hann að fá sér almennilegan Íslendingabíl. „Færeyingar kalla Íslendinga „já-ara“ í mesta bróðerni og risastóru jepparnir eru „já-ara jeppar“,“ segir Hendrik og hlær. „Þeir sögðu að nú yrði ég að fá mér risastóran íslenskan já-ara jeppa!“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.