Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tjáði formanni og varaformanni stjórnar Íslandspósts (ÍSP) að félagið ætti að gera ráð fyrir 490 milljón króna framlagi ríkisins til félagsins í áætlunum sínum fyrir rekstrarárið 2020. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Póstsins.

Undanfarnar vikur hefur samstarf stjórnarmanna Póstsins gengið treglega. Áhöld hafa verið uppi um það hvort ákvarðanir, sem samkvæmt samþykktum félagsins heyra undir stjórn, hafi verið teknar af henni. Þar á meðal er ákvörðun um gjaldskrárlækkun alþjónustu innanlands sem tók gildi í upphafi árs 2020.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur ítrekað fjallað um hafa ný lög um póstþjónustu að geyma ákvæði um „eitt land, eitt verð“ hvað alþjónustuna varðar. Alþjónustan nær til pakka upp að tíu kílógrömmum og ber Póstinum að afgreiða þær fyrir hvert heimili á landinu. Lögin gera ráð fyrir því að ríkið muni greiða alþjónustuveitanda fyrir þjónustuna á óarðbærum svæðum landsins og var við því búist að kostnaður vegna þessa yrði undir 100 milljónum króna á ári.

„Eitt land, eitt verð“, sem var hugsað sem byggðaaðgerð, var túlkað af stjórnendum félagsins á þann veg að skásti kosturinn væri að færa landið allt niður á sama verð og á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt myndi hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkið en áætlanir Póstsins gera ráð fyrir að sá kostnaður sé 490 milljónir króna á ári. Önnur afleiðing hefur verið sú, líkt og blaðið hefur fjallað um, að hin lágu verð hafa grafið undan starfsemi flutningafyrirtækja á landsbyggðinni.

Samningar milli stjórnvalda og ÍSP um alþjónustuna leiddu ekki til niðurstöðu og fór það svo að Póst- og fjarskiptastofnun útnefndi félagið alþjónustuveitanda á landinu öllu. Því til viðbótar gekk illa að ná saman um hve mikið skyldi greiða fyrir þjónustuna en fundir með forsætisráðherra og fjármálaráðherra virðast hafa leyst þann vanda.

Samþykki ekki að finna í fundargerðum

„Fram kom hjá fjármálaráðherra að eins og staðan væri, bæri að leggja inn í áætlanir ÍSP útreiknaðar stærðir þjónustusamnings eins og þær liggja fyrir og ÍSP hefur reiknað út og lagt inn í vinnu vegna þjónustusamnings. […] Enn fremur lýsti fjármálaráðherra og fulltrúar ráðuneytisins vilja til að vinna með fyrirtækinu að því að bæta rekstrarhæfi þess enn frekar og aðgerðum til að treysta efnahag félagsins,“ segir í fundargerð af fundi stjórnar frá í nóvember 2019.

Pósturinn fékk 250 milljónir króna í „varúðarframlag“ undir árslok 2019 vegna þessa en þær voru færðar í bækur félagsins sem tekjur. Heimildir blaðsins herma síðan að afgangurinn hafi verið færður sem skammtímakrafa í hálfsársuppgjöri þess í samræmi við það sem fram kom hjá ráðherra. Fyrrnefndar 250 milljónir kláruðust um mitt síðasta ár og hefur blaðið ekki upplýsingar um það hvort síðari hluti greiðslunnar hafi skilað sér til félagsins. Þá hafa Samtök verslunar og þjónustu, en þar er ÍSP eitt aðildarfélaga, fært fyrir því rök að gjaldskráin sé einfaldlega ekki í samræmi við lög.

Samkvæmt samþykktum félagsins er eitt af megin skyldustörfum stjórnar að setja gjaldskrár félagsins. Í fundargerðum frá þessum tíma er þess ekki getið að stjórn hafi formlega lagt til umrædda gjaldskrárlækkun en fundina fyrir þann tíma var málið vissulega ítrekað til umræðu. Formleg ákvörðun er aftur á móti ekki færð til bókar. Fundargerðir stjórnar hafa að vísu rýrnað töluvert eftir að Viðskiptablaðið hóf að kalla eftir afritum af þeim og því ekki loku fyrir það skotið að misfarist hafi að festa ákvörðun stjórnar í letur. Hinn möguleikinn er sá að samþykkið hafi ekki legið fyrir líkt og lög og samþykktir félagsins kveða á um.