Hermenn sem sendir voru til að taka Recep Tayyip Erdogan forseta Tyrklands höndum á meðan á misheppnaðri valdaránstilraun helgarinnar stóð, var sagt að þeir væru að fara að handsama mikilvægan hryðjuverkaleiðtoga.

Tveir lífverðir létust

Hermennirnir fengu svo að vita hlutverk sitt í valdaráninu með meiri nákvæmni þegar verið var að fljúga með þá til sumardvalastaðarins þar sem Erdogan og fjölskylda hans voru í sumarfríi.

Í átökunum sem hófust í kjölfarið létu tveir af lífvörðum forsetans lífið, en ekki er ljóst hve margir hermenn tóku þátt í tilrauninni til að handsama forsetann.

Víðtækar handtökur

Hernaðarráðunautur Erdogan, hershöfðinginn Erkan Kivrak, hefur verið handtekinn í suðurhluta Tyrklands vegna gruns um tengsl við þá sem stóðu að bakvið valdaránið.

Meðal annarra handtekinna hershöfðingja er fjögurra stjörnu hershöfðinginn, Akin Ozturk, sem stýrði flugher landsins þangað til í ágúst í fyrra. Einnig hafa Metin Iyidil, stjórnandi þjálfunarmiðstöðvar landhersins og Muharrem Kose, lögfræðiráðunautur herráðsins verið handteknir.

Eru fleiri en 9.300 manns í haldi eftir að valdaránstilraunin var brotin á bak aftur, þar á meðal að minnsta kosti 118 hershöfðingjar og aðmírálar, sem er um þriðjungur helstu yfirmanna í tyrkneska hernum.

Hreinsað út úr menntakerfinu

Jafnframt hafa 15.200 starfsmenn í menntakerfinu verið reknir og leyfi 21.000 kennarra til viðbótar í einkareknum skólum verið afturkallað.

Eru þeir grunaðir um tengsl við klerkinn Fethulla Güllen, sem Erdogan forseti sakar um að hafa staðið á bakvið valdaránið. Hreyfing hans Hizmet heldur úti víðtæku neti skóla og hjálparstofnana í landinu.