Alvogen sagði Halldóri Kristmannssyni upp störfum hjá fyrirtækinu samhliða því að birtar voru niðurstöður innanhúsrannsóknar á ósökunum Halldórs gagnavart Róberti Wessman, forstjóra Alvogen og stjórnarformanni Alvotech. Þetta kemur fram í nýrri yfirlýsingu Halldórs að því er Morgunblaðið greinir frá.

Halldór segir að setið hafi verið fyrir sér fyrir utan World Class í Smáralind þar sem honum hafi verið birt uppsagnarbréf og stefna. Niðurstöður rannsóknar Alvogen voru að hreinsa Róbert af öllum sökum sem Halldór segir hvítþvott. Í yfirlýsingu Halldórs í síðustu viku var Róbert meðal annars sakaður um morðhótanir og ofbeldi.

Halldór hefur lagt áherslu á að hann geri ekki fjárkröfu gagnvart Alvogen eða Alvotech en hann áskilji sér rétt til að gera fjárkröfu gagnvart Róberti Wessman. Í nýjustu yfirlýsingunni segir Halldór að hann vilji leita leiða til að ná sátt í málinu utan dómstóla.

„Ég hef talsverðar áhyggjur af því að aðgerðarleysi Alvogen og Alvotech gagnvart Róbert Wessman, kunni að skaða orðspor fyrirtækjanna,“ hefur Morgunblaðið eftir Halldóri. Hann hafi sem hluthafi hagsmuni af því að fyrirtækinu vegni vel og því vilji hann leita sátta. Málið hafi þegar vakið athygli samstarfsaðila, viðskiptavina og fjárfesta, bæði hér á landi og erlendis.