Gengi hlutabréfa bresku matvöruverslunarkeðjunnar Sainsburys hækkaði um 14% á föstudaginn eftir að fjárfestingasjóðir staðfestu áhuga á að kaupa og afskrá fyrirtækið.

Yfirtökunefnd Bretlands fór fram á að fjárfestingasjóðirnir CVC, Blackstone og KKR gerðu grein fyrir áhuga sínum á Sainsburys, en orðrómur um hugsanlega yfirtöku hefur stuðlað að mikilli hækkun á gengi hlutabréfa félagsins. Fjárfestingasjóðirnir staðfestu á föstudaginn að þeir væru að skoða Sainsburys en að málið væri á frumstigi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að Baugur hefði verið að kaupa í Sainsburys, og talið var að um 3% hlut væri að ræða. Breska dagblaðið The Daily Telegraph greinir frá því á frétt á sunnudaginn að Baugur eigi um 2% hlut í Sainsburys.

Sérfræðingar útiloka ekki að Baugur gangi til liðs við fjárfestingasjóðina og reyni yfirtöku. En benda á að ef ekki verður af samstarfi, mun félagið taka út verulegan gengishagnað af stöðu sinni. Þegar Baugur keypti í Sainsburys var markaðsverðmæti félagsins um 7,5 milljarðar punda, en nú er reiknað með að hugsanleg kaupverð geti verið í kringum 10 milljarðar punda.