Aðalsaksóknarinn í Mílanó á Ítalíu, Edmondo Bruti Liberati, óskaði síðastliðinn föstudag eftir húsleitarheimild til neðri deildar ítalska þingsins. Beiðnin nær til skrifstofu Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu.

Saksóknari telur samkvæmt beiðninni að Silvio Berlusconi hafi keypt sér þjónustu fjölda vændiskvenna. Liberati telur að skjöl og gögn í tölvum á skrifstofu Berlusconi sanni að meðlimir í starfsliði forsætisráðherrans hafi haft milligöngu um að gefa gjafir og peninga til fjölda kvenna í skiptum fyrir kynlí. Þar á meðal sé Karima El Mahroug sem nú er 18 ára gömul.

Sala eða kaup á vændi er ekki bönnuð á Ítalíu. Það er hins vegar bannað að fá börn undir 18 ára aldri til kynlifsathafna með peningum eða verðmætum. Saksóknari heldur því fram í óskinni um húsleitarheimild, að Berlusconi hafa sængað hjá El Mahroug á tímabilinu febrúar til maí í fyrra þegar hún var 17 ára gömul. Að auki heldur saksóknari fram að Berlusconi hafi sængað hjá minnst 9 öðrum konum í skiptum fyrir greiðlu.

Berlusconi hefur ítrekað sagt við ítalska fjölmiðla að hann hafi aldrei greitt eða gefið gjafir í skiptum fyrir kynlíf.