Þrír starfsmenn Deutsche Bank eiga að hafa sagt bandarískum eftirlitsaðilum frá því að bankinn hafi falið 12 milljarða dollara tap í bókum fyrirtækisins, sem samsvarar um 1500 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Meðal annars er um að ræða ofmetnar stöður á tryggingum frá Berkshire Hathaway sem er í eigu Warren Buffett. Það er Financial Times sem greindi frá þessu seint í gær.

Í grein blaðsins kemur fram að þrír fyrrverandi starfsmenn hafi á mismunandi tímum upplýst bandaríska fjármálaeftirltið um áhyggjur sínar af stöðu mála hjá bankanum. Allir starfsmennirnir hættu hjá bankanum í kjölfarið en einn þeirra gerði dómssátt við bankann upp á 900 þúsund dollara gegn því að höfða ekki mál gegn bankanum.

Þar segir einnig að með þessum bókhaldsæfingum bankans hafi verið komið í veg fyrir að hann þyrfti á ríkisaðstoð að halda í fjármálakreppunni.