Breska blaðið The Guardian heldur því fram að sjávarútvegsfyrirtækin Unilever og Icelandic Group UK selji ólöglega veiddan fisk úr Barentshafi. Meðal annars fari fiskurinn til svokallaðra "Fish & chips" staða í Bretlandi en viðskiptavinir þeirra skipta milljónum í viku hverri.

Fiskeribladet fjallar um þetta mál á vefsíðu sinni í dag en þar segir að Icelandic Group UK selji fiskafurðir til meira en 1500 Fish & chips staða í Bretlandi. Því er haldið fram í The Guardian að mest af þessum ólöglega veidda fiski úr Barentshafi komi frá skipum Ocean Trawlers en það fyrirtæki varð, að sögn blaðsins, nýlega að flytja aðalskrifstofu sína frá Noregi til Hong Kong vegna þess sem nefnt er ,,samsærisleg" framkoma norskra yfirvalda.


Ocean Trawlers skipin hafa, að sögn The Guardian, séð Birds Eye í Hull, fyrir hráefni, sem og fiskvinnslu í Bremerhaven sem er í eigu móðurfélagsins Unilever. Það sé því ekki rétt sem haldið er fram á heimasíðu Unilever að allur fiskaflinn, sem fyrirtækið vinnur úr, komi frá skipum innan Evrópusambandsins.

Blaðið segir að Ocean Trawlers, sem stofnað var af Svíanum Magnus Roth og Rússanum Vitaly Orlov, sé þriðja stærsta fyrirtæki heims á sviði sölu á þorski til vinnslu í landi. Auk eigin útgerðar kaupir Ocean Trawlers og selur afla rússneskra togara en margir þeirra munu veiða mun meira en kvótar þeirra segja til um. Umfjöllun The Guardian byggir m.a. á sænska sjónvarpsþættinum ,,Kalle fakta" þar sem fjallað var um ólöglegar veiðar í Barentshafi.

Í samtali við The Guardian segir Magnus Roth að það sé ómögulegt fyrir Ocean Trawlers að tryggja að allur afli rússnesku togaranna sé í samræmi við kvóta þeirra. Fyrirtækið geti ekki séð um eftirlit með því að útgerðarfyrirtæki veiði ekki umfram kvóta. Sömu svör fékk blaðið hjá Unilever.

Í The Guardian kemur fram að Icelandic Group UK hafi keypt meira en 1000 tonn af þorski frá Ocean Trawlers í fyrra. Haft er eftir Finnboga Baldvinssyni, forstjóra fyrirtækisins í Evrópu, að hann sjái enga ástæðu til að kaupa ekki fisk af Ocean Trawlers. Hann segir að félagið kaupi fisk í góðri trú og treysti á að eftirlit með veiðum rússnesku togaranna sé fullnægjandi.

Heimild: www.skip.is