Kínverski fjarskiptarisinn Huawei, sem síðustu ár hefur reynt að ná fótfestu í Bandaríkjunum, lýtur nú rannsókn bandarískra yfirvalda en fyrirtækinu er gefið það að sök af hafa stundað njósnir um bandaríska þegna.

Þetta kemur fram á forsíðu Wall Street Journal (WSJ) í dag. Blaðið hefur undir höndum skýrslu sem fjallað verður um í þingnefnd bandaríska þingsins um erlenda fjárfestingu í dag.

Það er sú þingnefnd sem rannsakar fyrirtækið en meint brot þess eru sögð ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Annað kínverskt fjarskiptafyrirtæki, ZTE, er einnig til rannsóknar fyrir sömu brot. Fyrirtækjunum er báðum gefið að sök að hafa útbúið hlerunarbúnað til njósna fyrir kínversk yfirvöld.

Þingnefndin sem er með fyrirtækin til rannsóknar hefur lagt það til að þeim verði bannað að fjárfesta í Bandaríkjunum og jafnframt bannað að selja tækni til bandarískra fyrirtækja.

Málið á án efa eftir að valda togstreitu í samskiptum risaveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Kína. Bandarísk hermálayfirvöld hafa að sögn WSJ lengi varað við því að kínversk stjórnvöld kunni að stunda tækninjósnir til að ógna bandarískum yfirvöldum sem og bandarískum fyrirtækjum.

Bæði fyrirtækin neita þó sök og segja það af og frá að kínversk stjórnvöld fái að nota tækni þeirra til að stunda hleranir eða njósnir. Bæði hafa fyrirtækin miklar áætlanir um að fjárfesta frekar í bandarískum fjarskiptaiðnaði og hafa á undanförnum misserum stundað mikla hagsmunabaráttu í þeim tilgangi.

Sjá frétt WSJ