*

miðvikudagur, 13. nóvember 2019
Innlent 9. maí 2019 16:29

Saka lögmann ALC um dylgjur

„Enn einu sinni notar hann fjölmiðla til þess að bera á borð fullyrðingar um stjórnendur Isavia sem ekki standast skoðun.“

Ritstjórn
Vél ALC hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá falli Wow air.
Haraldur Guðjónsson

Isavia sakar lögmann Air Lease Corporation (ALC) um dylgjur í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum nú rétt í þessu. Í yfirlýsingunni er að auki tekið fram að það stöðvi ekki á Isavia að aflétta haldi á flugvél ALC sem kyrrsett hefur verið á Keflavíkurflugvelli.

Undanfarnar vikur hefur verið fjallað um mál ALC gegn Isavia. Við fall Wow var vél félagsins, sem það leigði af ALC, kyrrsett á Keflavíkurflugvelli sem trygging fyrir rúmlega tveggja milljarða skuld þess við Isavia. Félagið fór fram á að kyrrsetningunni yrði aflétt en því var hafnað af héraðsdómi. Í úrskurðinum var hins vegar tekið fram að vélin gæti ekki virkað sem trygging fyrir skuldinni allri heldur aðeins af ógreiddum notendagjöldum sem notkun vélarinnar sjálfrar hefði stofnað til.

Fjallað var um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Var þar meðal annars vikið að greiðsluáætlun Wow við Isavia en í upphaflegri áætlun var að finna ákvæði um að ávallt skyldi ein vél félagsins vera staðsett á Keflavíkurflugvelli eða á leið þangað. Það ákvæði var ekki að finna í hinu undirritaða samkomulagi.

„Það afhjúpar enn frekar ásetning og hugræna afstöðu Isavia til þess gjörnings. Þeir vita að það þolir ekki dagsljósið að áskilja sértryggingu í eign þriðja manns fyrir slíkri skuldasöfnun. Séu fundargerðir stjórnar settar í samhengi við þetta þá er ljóst að það er forsenda fyrir því að leyfa þeim að halda áfram að þessi svokallaða trygging sé til staðar,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC í blaðinu í dag.

Í yfirlýsingu Isavia segir að það hafi verið að beiðni Wow air sem tveir aðskildir samningar voru gerðir. Annars vegar greiðsluáætlunin, sem kvað á um fyrirkomulag greiðslu á 1.033 milljóna vanskilum, og hins vegar samningur um að ein vél skyldi ávallt vera á Keflavíkurflugvelli.

Samningsákvæði „benda til“ að ALC hafi verið meðvitað

„Gera má ráð fyrir að lögmanni ALC sé fullkunnugt um þetta. Enn einu sinni notar hann fjölmiðla til þess að bera á borð fullyrðingar um stjórnendur Isavia sem ekki standast skoðun. Farið er af stað með dylgjur í garð þeirra sem tóku erfiðar ákvarðanir um rekstur Isavia – ákvarðanir sem teknar voru á viðskiptalegum forsendum með hag Isavia að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingunni.

Í blaðinu í dag segir Oddur einnig að erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar frá Isavia og að ALC sé hafi leitast eftir því að fá svör um hvers konar trygging gæti verið fullnægjandi til að haldi á vélinni yrði aflétt. Slíkum beiðnum hafi ekki verið svarað.

„Rétt er að ítreka að Isavia hefur ekki staðið í vegi fyrir því að afhending flugvélarinnar fari fram gegn viðunandi tryggingu – svo sem eins og bankatryggingu, með fyrirvara um lögmæti kröfunnar. Síðan mætti takast á um ágreininginn fyrir dómstólum. Það er ákvörðun leigusalans að fara ekki þá leið,“ segir í yfirlýsingunni.

Hvað skort á upplýsingum varðar segir Isavia að í leigusamningi ALC og Wow hafi verið að finna ákvæði sem heimila ALC að kalla hvenær sem er eftir upplýsingum um skuldastöðu Wow gagnvart Keflavíkurflugvelli. Þá séu þar einnig ákvæði sem „benda til að leigusali hafi verið meðvitaður um möguleikana að greina þurfi gjöld af öllum vélum vegna einnar kyrrsettrar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Isavia Wow dómsmál ALC