Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hyggst leggja fram frumvarp á komandi dögum sem breyta mun meðhöndlun innfluttra matvæla frá Bretlandi innan stjórnsýslunnar og greiða fyrir viðskiptum með þær.

Mörg fyrirtæki eru sögð hafa þurft að afla sér innlendrar vottunar á innfluttum lífrænum vörum frá Bretlandi, sem þegar hafi verið vottaðar í upprunalandinu, þar sem landið sé nú orðið „þriðja ríki“ í skilningi EES-samningsins.

Vottunarstofan Tún er eina vottunarstofa landsins sem býður upp á slíka vottun og tekur fyrir það 400 þúsund króna árlegt gjald auk þess að skila þarf inn gögnum um allar vörur. Forsvarsmaður Túns segir stofuna hafa fengið um það bil tug nýrra viðskiptavina vegna hinna nýju reglna, og býst við öðrum eins fjölda til viðbótar.

Ekkert bólað á boðuðu frumvarpi
Viðskiptablaðið greindi frá því í lok janúar að til stæði að frumvarpið yrði lagt fram innan fárra daga. Átti það meðal annars að leysa vanda Veganmatar ehf., sem flytur inn lífrænt vottaða matvöru frá Bretlandi, en hafði nýlega verið gert af Matvælastofnun (MAST) að sækja sér innlenda vottun með ærnum tilkostnaði til að mega selja vörurnar hér.

Í kjölfar fréttaflutningsins fékk blaðið hins vegar veður af því að MAST liti svo á að slík lagabreyting stæðist ekki EES-samninginn. Ekkert bólaði svo á frumvarpinu í þinginu næstu vikur, þrátt fyrir að heimildarmaður blaðsins innan stjórnarráðsins hafi fullyrt að slíkt stæði til.

Í svörum ráðuneytisins við fyrirspurn um málið kom ekkert fram um ástæður þessara tafa né um afstöðu MAST þótt eftir því hafi verið innt. Frumvarpið var hins vegar sagt verða lagt fram „á komandi dögum“. Áhrif frumvarpsins sjálfs eru heldur ekki útlistuð með beinum hætti, en fram kemur að „þar til frumvarpið verði að lögum sé horft á vörur sem eiga uppruna í Bretlandi sem vörur frá þriðju ríkjum“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .