Fyrrverandi utanríkisráðherra og atvinnuvegaráðherra vönduðu Norðmönnum ekki kveðjurnar í umræðum um skiptingu makrílkvótans í sérstakri umræðu á Alþingi í dag. Sem kunnugt er ákváðu Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið að semja i gær án aðkomu Íslendinga.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar, segist þó telja að ekki hafi verið staðið nógu vel að málum í samningaviðræðum fram að þessu. Til dæmis hafi komið fram að Norðmenn hafi reynt að koma í veg fyrir veiðar Íslendinga á markíl í lögsögu Færeyinga án þess að utanríkisráðherra hefði mótmælt þessu inngripi Norðmanna.

„Ég og fleiri kröfðumst þess þá að utanríkisráðhera mótmælti þessu. Það gerði utanríkisráðherra ekki,“ sagði Össur. „Sá maður sem á og hefur stöðu til þess að mótmæla fyrir hönd íslands. Hann gerði það ekki,“ sagði Össur. Það væri óásættanlegt að Íslendingar hefðu vitað að Norðmenn beittu klækjabrögðum án þess að mótmæla. Össur hrósaði hins vegar framgöngu Sigurðar Inga Jóhannssonar í málinu og fagnaði því að Íslendingar hefðu haft sjálfbærni að leiðarljósi í þessum umræðum.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fyrrverandi ráðherra sjávarútvegsmála, tók undir með Össurri og velti því fyrir sér hvort hægt hefði verið að grípa til frekari ráða á lokametrunum. Hann sagði þó að ekkert í framgöngu Norðmanna kæmi sér á óvart. „Það er búið að liggja fyrir býsna lengi að þeir væru okkar erfiðasti viðsemjandi,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði að Norðmenn væru að gera það sem þeir hefðu alltaf ætlað sér að gera, að tryggja að Íslendingar hefðu ekki aðgang að annarri lögsögu en sinni eigin. Í öðru lagi að veiða stofninn niður og hindra að hann kæmi til Íslands. Steingrímur harmaði það að skúrkurinn, sem væri Noregur, hefði verið verðlaunaður með því að ná sínu fram. Það yrði þó að segja að Norðmenn hefðu spilað leikinn vel.

Steingrímur tók einnig undir þau sjónarmið að mikilvægt hefði verið að Íslendingar hefðu haft sjálfbærni að meginsjónarmiði í samningaviðræðum.