Willie Walsh, forstjóri IAG móðurfélags British Airways, segir að mannleg mistök hafi valdið bilun í tölvukerfi flugfélagsins sem að urðu þess valdandi að 75 þúsund farþegar lentu í vandræðum. Talsvert öngþveiti ríkti vegna atviksins. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Að sögn forstjórans hafði tæknimaður fyrirtækisins aftengt aflgjafa og tengt hann á ný en þá myndaðist straumhnykkur sem olli miklum skaða. Forstjórinn sagði að málið verði rannsakað svo að flugfélagið geti „lært frá mistökunum.“

Walsh sagði enn fremur að tæknimaðurinn hafði ekki leyfi til að „gera það sem hann gerði“ þó að hann hafi haft leyfi til að vera á staðnum. British Airways sagði að straumhnykkurinn hafi orsakað tölvuvandræðin, en gaf þó ekki nánari útskýringar á því. Greiningaraðilar hjá bandaríska fjárfestingabankanum Citigroup reikna með því að kostnaður International Consolidated Airlines móðurfélags British Airways muni nema 111 milljónum evra vegna bilana í tölvukerfi BA.