Stjórn Landeigandafélags Geysis harmar það sem í ályktun félagsins er kallað seinagangur og áhugaleysi stjórnvalda á því að leysa málefni ferðamannastaðarins Geysis í Haukadal.

Í ályktuninni, sem samþykkt var á aðalfundi félagsins, segir að um áratugaskeið hafi landeigendur reynt að ná samningum við meðeiganda sinn um sölu, leigu eða samstarf um rekstur svæðisins en lítt orðið ágengt.

Fyrir ári hófu landeigendur að innheimta aðgangsgjald sem var stöðvað með lögbanni af hendi ríkisins en síðan þá hefur ekkert gerst í málinu, að því er segir í ályktuninni. „Á sama tíma hefur fjöldi ferðamanna sem sækja svæðið heim margfaldast og er nú svo komið að febrúar er álíka stór mánuður og júní fyrir nokkrum árum síðan. Þróun þessi er um margt ánægjuleg en vart þarf að fjölyrða um aukið álag á svæðið og viðkvæma náttúru þess sem kallar á uppbyggingu og eftirlit svo taka megi sómasamlega á móti þessum fjölda ferðamanna.“

Þar segir jafnframt að landeigandafélaginu þyki miður að Ríkið kjósi að reka málið fyrir dómsstólum fremur en að ræða beint við meðeigendur sína. Nýfallinn dómur í Héraðsdómi Suðurlands sem staðfesti lögbann á gjaldtökuna taki ekki á því hvort gjaldtakan sé yfir höfðuð lögmæt heldur sé þar fyrst og fremst um að ræða mál milli eiganda svæðisins. Þá hafi Ríkið ekki komið með neina lausn aðra en þá að henda nokkrum milljónum í óskilgreind verkefni sem sé hvort tveggja í senn ómarkviss aðgerð og í engu samræmi við brýna þörf uppbyggingar á svæðinu.

„Landeigendur skora jafnframt á aðila ferðaþjónustunnar og þá sérstaklega forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem gera út á náttúrúperlurnar að hugsa ekki eingöngu um skammtímagróða heldur til framtíðar. Hverasvæðið liggur undir alvarlegum skemmdum sem þarf að bregðast við strax og slíkar aðgerðir þarf að fjármagna. Verði ekkert aðhafst er ekki ólíklegt að Geysissvæðið missi alfarið það aðdráttarafl sem það hefur og ein helsta mjólkurkú ferðaþjónustunnar verði þar með geld á einni nóttu,“ segir í ályktuninni.