Stjórnvöld og fyrirtæki í þeirra eigu virðast lítt hrifin af því að bjóða út innkaup á raforku. Framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar segir menn ganga ansi langt í að reyna að viðhalda ólögmætu ástandi.

„Úrskurðurinn í máli Rarik tekur af allan vafa um að þessi fyrirtæki séu útboðsskyld. Með því er fordæmið skapað og það má gefa Veitum prik fyrir það að fyrirtækið er í raun hið eina sem hefur sinnt þessari skyldu sinni. Eftir að úrskurðurinn lá fyrir höfum við náð lendingu með Veitum. Ég tel rétt að hrósa þeim fyrir hvernig hefur verið leyst úr þessu en viðmótið þar er annað en annars staðar,“ segir Magnú Júlíusson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar (ÍOM).

Framkvæmdastjórinn segir að félagið hafi sent erindi á dreifiveitur landsins eftir að niðurstaðan í málinu gegn Rarik lá fyrir. Spurt hafi verið að því hvernig þau hyggist bregðast við úrskurðinum.

„Svörin, það er þau svör sem berast, eru þess eðlis að mönnum finnst þetta flókið, undirbúningur muni taka mikinn tíma og að það hafi verið gerðir samningar sem gilda langt inn í framtíðina. Samandregið, á einföldu máli, þá hafi menn ekki í hyggju að virða útboðsskylduna á næstunni,“ segir Magnús.

Sem dæmi um svör sem félaginu hafa borist má nefna andmæli sem Reykjavíkurborg sendi í tilefni af kæru í kjölfar kaupa borgarinnar á raforku frá Orku náttúrunnar án útboðs. Þar segir meðal annars að borgin sinni „mikilvægri samfélagslegri grunnþjónustu, bæði lögbundinni og ólögbundinni, fyrir tæplega meirihluta landsmanna. Kæmi til þess að samningur ON og [borgarinnar] yrði lýstur óvirkur hefði það í för með sér verulega röskun á allri þjónustu varnaraðila, þ.m.t. fötlunar-, grunn- og leikskólaþjónustu. Hagsmunir [ÍOM] eða markaðarins af því að fá umræddan samning lýstan óvirkan þ.a.l. í engu samræmi við þá samfélagslegu hagsmuni er búa að baki áframhaldandi framkvæmd hans.“

„Við höfum bæði staðið í stappi við dreififyrirtækin en einnig við sveitarfélögin. Mörg þeirra hafa virt skyldu sína á þessu ári og sum þeirra gert það þrátt fyrir að eiga í orkufyrirtæki. Reykjavík hefur ekki viðurkennt útboðsskyldu sína. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að viðskipti borgarinnar lendi öll hjá ON á mjög háum verðum miðað við hvað gengur og gerist almennt á þessum útboðsmarkaði. Það mál er í ferli núna. En hingað til hefur tölvan sagt nei og sakað okkur um að vega að grunnþjónustu borgarinnar,“ segir Magnús.

„Reglur um útboðsskyldu eru settar af ástæðu til að passa upp á að samkeppnin virki. Stór biti af hinum almenna markaði er raforkukaup dreifiveitna og fyrirkomulagið eins og það hefur verið veitir óeðlilegt forskot sem hefur gríðarleg, samkeppnishamlandi áhrif í för með sér,“ segir Magnús.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .