Forsætisráðherra Malasíu lét millifæra um það bil 700 milljónir Bandaríkjadala úr ríkissjóðnum 1MDB beint inn á eigin bankareikning. Wall Street Journal segist hafa gögn þess efnis undir höndum, en þau koma úr rannsókn stjórnvalda.

Alls voru millifærslurnar yfir á reikning Razak fimm talsins og þær tvær stærstu, upp á 620 milljónir dollara og 61 millljón dollara áttu sér stað í mars 2013 á meðan kosningabaráttan í Malasíu stóð sem hæst.

Talsmaður malasísku ríkisstjórnarinnar sagði við Wall Street Journal að forsætisráðherrann hefði aldrei dregið að sér opinbert fé til einkanota. Sagði talsmaður skrifstofu hans að von væri á yfirlýsingu frá embættinu síðar í dag.

Talsmaður 1MDB sjóðsins sagði í Wall Street Journal að hann hefði enga vitneskju um þessar millifærslur og hefði engin gögn séð um að þær hefðu átt sér stað. Einnig er von á yfirlýsingu frá sjóðnum.

Þessi umtalaði ríkissjóður hefur verið harðlega gagnrýndur í Malasíu vegna skuldar upp á tæplega 11,6 milljarða dollara. Þykir honum hafa verið stýrt afar illa.

Sjóðurinn er undir smásjá ýmissa yfirvalda þar í landi; bæði Seðlabankans, ríkisendurskoðanda og lögreglunnar.