Aðeins örfáum klukkutímum eftir að forstjóri tölvuframleiðandans Hewlett-Packard (HP), Patricia Dunn, sagði af sér tilkynnti saksóknari Kaliforníu-fylkis að næg sönnunargögn væru til staðar svo hægt væri að höfða mál á hendur fyrirtækinu, bæði á hendur aðila innan þess og utan, segir í frétt Financial Times.

HP er gefið að sök að hafa ráðið til sín utanaðkomandi aðila sem villtu á sér heimildir sem stjórnarmeðlimir fyrirtækisins og komust þannig yfir einkasímtöl og tölvugögn stjórnarmeðlima. Sérfræðingar telja að yfirvöld í Bandaríkjunum muni taka harðar á málinu í kjölfar Enron-hneykslisins, en alríkislögreglan og bandaríska þingið munu einnig vera að skoða málið, segir í fréttinni.

Í kjölfar afsagnar sinnar viðurkenndi Dunn að óeðlilegum starfsháttum hafi verið beitt við eftirlit á stjórn fyrirtækisins. Enn er óljóst hverjir höfðu vitneskju um aðgerðirnar, bæði innan og utan fyrirtækisins. Tveir ráðgjafar stjórnarinnar eru taldir hafa tekið þátt í njósnaaðgerðunum, en þeir vísa því yfir á lögfræðideild fyrirtækisins og utanaðkomandi ráðgjafa.

Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins, Mark Hurd, sem taka mun við forstjórastöðu þess í janúar, hefur einnig verið orðaður við málið, en óvíst er í hvaða mæli Dunn upplýsti Hurd um njósnirnar. Tenging Hurd við málið hefur valdið hluthöfum nokkrum áhyggjum, þar sem hann hefur stýrt fyrirtækinu af miklum sóma fram til þessa. Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hafði lækkað um 1,8% á miðvikudag, en hneykslismálið hafði haft lítil áhrif á gengið fram að því.