„Þau slagorð sem komu út úr landsfundi Framsóknarflokksins hljóma of vel til að vera raunveruleg,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG. Hann var harðorður í garð þingmanna flokksins við upphaf þingfundar í dag. Árni sagðist hafa verið talsmaður þess um langt skeið að að afnema þurfi verðtrygginguna.

„En mér finnst þýðingarmikið að menn slái ekki ryki í augum fólks um það hvernig hægt er að gera þetta. Menn verða að gera sér grein fyrir því að efnahagslegar aðstæður verða að vera hér til að afnema verðtrygginguna. Það var um síðustu aldamót þegar ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var við völd,“ sagði hann og rifjaði upp að þrátt fyrir það lifi verðtryggingin enn.

Þá varaði Árni Þór við því að menn gangi um með þá hugsun að með afnámi verðtryggingar verði vandi vandi allra leystur og greiðslubyrði lána lækki. Hann kallaði eftir leiðum um það hvernig Framsóknarmenn sjái fyrir sér afnám verðtryggingar og hversu langan tíma þeir telja þurfa til að afnema hana.

Afnám verðtryggingar dagar uppi

Flokksystkinin Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, og Vigdís Hauksdóttir rifjuðu á móti bæði upp að þau hafi lengi mælt fyrir afnámi verðtryggingarinnar á Alþingi og hvaða leiðir megi fara. Gunnar Bragi sagði þingflokkinn hafa lagt fram tvö mál á yfirstandandi þingi. Greinilegt sé að þau njóti ekki forgangs enda virðist annað þeirra hafa dagað uppi á borði efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Þá bauð Vigdís Árna Þór að hitta þingflokkinn ef eitthvað væri óljóst og ræða málin.