Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kallar ummæli sem Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, viðhafði um Ísland í miðju bankahruni fjármálahryðjuverk. Þetta segir hann í viðtali við bandaríska tímaritið Foreign Affairs. Tímaritið er gefið út af Council on Foreign Relations sem er að sögn embættis Forseta Íslands helsta stofnun og rannsóknamiðstöð í Bandaríkjunum á sviði utanríkismála og alþjóðaþróunar.

Í viðtalinu er Ólafur Ragnar spurður að því hvenær Íslendingar hefðu áttað sig á því að fjármálakerfið væri að hrynja. „Þetta var nokkurra daga ferli. Þegar fyrsti bankinn var að hyrnja, gerðum við okkur ekki grein fyrir því að hinir bankarnir myndu líka falla. Gordon Brown fór í heimsfréttirnar og tilkynnti að við værum gjaldþrota þjóð, sem var hreint bull, svívirðileg ummæli. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að kalla þetta fjármálahryðjuverk. Allir trúðu honum. Enginn trúði okkur. Breska ríkisstjórnin setti okkur á stall með al Qaeda og Talibönum. Ég meina, stofnaðili NATO og miklir bandamenn Breta, þjóð án hers – við hefðum átt að vera síðasta þjóð í heimi til að fara á slíkan lista,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali við tímaritið

Ólafur Ragnar Grímsson segir að Gordon Brown hefði aldrei þorað að fara í fjármálastríð gegn Frakklandi eða Þýskalandi eða neinu öðru stærra ríki. „Þetta var svona Falklandsstund fyrir hann og hann vonaðist til þess að hann yrði vinsæll eins og Thatcher varð eftir Falklandsstríðið,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson.

Hér má lesa viðtalið við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands.