*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 13. apríl 2021 11:27

Sakar Ingó og félaga um bolabrögð

Jónas Eiríkur Nordquist sakar Ingólf Þórarinsson og viðskiptafélaga hans um að hafa haft af sér fyrirtækið X-Mist.

Ritstjórn
Ingólfur Þórarinsson er einn eigenda og stjórnarformaður X-Mist Scandinavia.
Haraldur Guðjónsson

Jónas Eiríkur Nordquist sakar tónlistarmanninn Ingólf Þórarinsson, Davíð Þór Rúnarsson og Sævar Eyvinds Helgason um að hafa haft af sér fyrirtækið X-Mist með bolabrögðum. Vísir greinir frá þessu en í samtali við Vísi vísar Ingó ásökunum Jónasar á bug og segir allt málið vera sorgarsögu.

Krefst Jónas þess í stefnu á hendur X-Mist Scandinavia ehf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að Ingólfi, Davíð og Sævari verði gert að greiða honum 25 milljónir króna í skaðabætur, með vöxtum. Auk þess krefst hann að þremenningarnir verði dæmdir til að greiða honum 5 milljónir króna í miskabætur.

„Jónas Eiríkur krefst þess til var vara að viðurkennt verði með dómi að stefndu hafi bakað sér óskipta skaðabótaábyrgð gagnvart stefnda með stofnun og rekstri X-mist Scandinavia ehf með því að færa þangað viðskiptasambönd frá X-mist hef, bæði viðskiptasamband við birgja og viðskiptavini og nýta vefsíðuna xmist.is í þágu reksturs X-mist ehf. yfir til X-mist Scandinavia ehf og nýta sér þær án endurgjalds," segir í frétt Vísis.

Í samtali við Vísi segir Ingólfur að um sé að ræða aðila sem ekki hafi haft fjárhagslega burði til að taka þátt í rekstrinum. Hann hafi því hætt og selt sig út. Nú sjái hann hins vegar eftir því og og reyni að mála upp mynd sem sé sannleikanum fjarri. Segir hann Jónas vera í vígahug en þessum ásökunum verði öllum svarað í smáatriðum.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun febrúar annast X-Mist Scandinavia heildsölu X-Mist sótthreinsivara hér á landi, en félagið var formlega stofnað í desember á síðasta ári. Er um að ræða skoska vöru sem hefur verið í þróun frá árinu 2017.