„Ég steig meðvitað mjög varlega til jarðar. En hann misskildi þetta allhrapalega,“ segir Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við vb.is um harkalega gagnrýni Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson, formanns Framsóknarflokksins á Alþingi í dag.

Magnús Orri fjallaði stuttlega um auðlindaákvæði í drögum að nýrri stjórnarskrá í umræðum um störf Alþingis í dag og vakti sérstaka athygli á þá samþykkt af landsfundi Framsóknarflokksins að nýting auðlinda skapi ekki eignarétt.

Mann langar svo til þess að hafa trú á honum

Sigmundur Davíð brást hins vegar hinn versti við og sakaði þingmenn Samfylkingarinnar um að hafa ekki lesið tillögu Framsóknarmanna og veittist sérstaklega að Magnúsi Orra.

Hann sagði:

„Ég ætla að ræða hér möguleika í íslensku atvinnulífi. En eins og svo oft áður eru menn settir í þá stöðu að svara einhverjum þvættingi. Hvers vegna getum við ekki átt hér eðilega rökræðu? Af hverju erum við nú lent í því, einum eða tveimur dögum eftir að formenn stjórnarflokkanna boðuðu að það ætti að taka upp ný vinnubrögð í sátt og ræða málin á opinn og lausnamiðaðan hátt, að standa frammi fyrir því að fyrst þeir öfgafyllstu af þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og nú þeir…. Ég veit ekki hvaða orð hægt er að nota yfir þá háttvirta þingmenn Samfylkingarinnar. Það er í raun ekki til eitt orð yfir þá sem hafa talað hér í dag. Ég vil sérstaklega taka fram að háttvirtur þingmaður Magnús Orri Schram hefur eina ferðina enn valdið mér vonbrigðum. Það er eitthvað við háttvirtan þingmann sem veldur því að mann langar svo að hafa trú á honum. En aftur og aftur veldur hann manni vonbrigðum með því að elta einhvern vitleysisöfgamálflutning. Það er hins vegar langt síðan háttvirtir þingmenn, Ólína Þorvarðardóttir og Lilja Mósesdóttir hættu að valda mér vonbrigðum.”

Lesið frumvarpið!

Sigmundir Davíð hélt áfram gagnrýni sinni:

„Háttvirtir þingmenn koma hér og fullyrða eitthvað um sem Framsóknarmenn eiga að hafa lagt fram. Það er ekki aðeins ósatt heldur viðsnúningur á því sem Framsóknarmenn lögðu til. Það var ekki einu sinni haft fyrir því að lesa tillöguna. Hér hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum komið upp í ræðustól og farið með rangt mál. […] Í tillögu Framsóknarmanna er sérstök áhersla á það að nýting skapi ekki eignarétt.