Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir Guðmund Árnason, ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hafa haft beint samband við sig í því skyni að reyna að hafa áhrif á val á stjórnarformanni íslensks fjármálafyrirtækis

Þetta kemur fram í umsögn Bankasýslunnar við frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem lagt hefur verið fyrir Alþingi, en Viðskiptamogginn greindi fyrst frá þessu í morgun.

Í umsögninni segir að ráðuneytisstjórinn hafi tvisvar haft samband við forstjóra Bankasýslunnar í þessu skyni dagana 30. júní og 2. júlí í fyrra. Auk þess hafi hann beint tilmælum til forstjórans um að beita sér fyrir því að fjármálafyrirtækið frestaði stjórnarfundi.

Forstjóri Bankasýslunnar mótmælti umræddum afskiptum samkvæmt umsögninni og taldi þau ekki í samræmi við lög. Upplýsti hann stjórn Bankasýslunnar tafarlaust um afskiptin.

„Eru afskipti ráðuneytisstjórans einkum alvarleg í Ijósi þess að samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og samþykktum þeirra er það hlutverk kjörinnar stjórnar að skipta með sér verkum og kjósa sér formann, en ekki eigenda nema samþykktir kveði svo á um, og hlutverk stjórnarformanns að boða til stjórnarfunda, en ekki eigenda. Ætti ráðuneytinu að vera fullkunnugt um þetta, enda er löggjöf um fjármálafyrirtæki á forræði þess.,“ segir í umsögn Bankasýslunnar.