Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks skera niður í velferðarsamfélaginu til að þóknast útgerð og stóreignafólki. Þetta kom fram í ræðu Katrínar á flokksráðsfundi VG í dag.

Nefndi Katrín sem dæmi að ríkisstjórnin hefði lagt af auðlegðarskatt, en innheimtu skattsins var hætt seinustu áramót þegar sólarlagsákvæði sem hafði verið lögfest samhliða skattinum tók gildi. „Stórútgerðarfyrirtækin greiða sér út arð fyrir það að fá að nota sameiginlega auðlind þjóðarinnar," sagði hún í ræðu sinni og að áherslur ríkisstjórnarinnar birtust jafnframt í niðurskurði í velferðarmálum til að „útgerðarfólk og stóreignamenn geti haft það aðeins betra."

Útgjöld til velferðarmála hækka um 4 milljarða

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 kemur fram að útgjöld til heilbrigðismála, almannatrygginga og annarra velferðarmála verði tæpir 296 milljarðar. Miðað við fyrra ár er um 4 milljarða króna hækkun að ræða á núvirði og er það 1,37%% hækkun umfram verðlag.

„Það sem við höfum verulegar áhyggjur af er að Ísland er að dragast aftur úr með velferðarútgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu," sagði Katrín í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.