*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 13. apríl 2020 12:55

Sakar ritstjórnir VB og FBL um dylgjur

Forstjóri SKE segir umfjöllun um kunnáttumann „óvenju skýrt dæmi um þá heiftúðugu orðræðu“ sem það búi við.

Ritstjórn
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, er ómyrkur í máli í innsendum pistli í Kjarnanum í dag.
Haraldur Guðjónsson

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir nærtækt að álykta að Óðinspistli síðasta Viðskiptablaðs og umfjöllun Fréttablaðsins um mál Lúðvíks Bergvinssonar sé ætlað að veikja eftirlitið. Þetta segir hann í innsendum skoðanapistli í Kjarnanum í dag.

Lúðvík var skipaður kunnáttumaður í sátt Samkeppniseftirlitsins og Festar varðandi samruna N1 og Krónunnar haustið 2018, og er það fyrirkomulag gagnrýnt í umfjöllununum tveimur sem Páll Gunnar vísar til, ekki síst vegna hárra greiðslna.

Lúðvík hefur sent Festi reikninga fyrir alls 41 milljón króna frá haustinu 2018, eða tæpum 3 milljónum á mánuði. Er þar meðal annars bent á að Einar Gautur Steingrímsson kunnáttumaður í samrunamáli Haga og Olís hafi aðeins rukkað um áttunda hlut þeirrar upphæðar á sama tímabili. Þá er vinskapur Lúðvíks og Ásgeirs Einarssonar aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins gerður að umtalsefni.

Engar athugasemdir við störf eða greiðslur
Páll Gunnar segir Óðinspistilinn „óvenju skýrt dæmi um þá heiftúðugu orðræðu sem stofnanir sem gæta hagsmuna almennings þurfa stundum að búa við af hendi þeirra sem gefa sig út fyrir að vera að berjast fyrir hagsmunum íslenskra atvinnufyrirtækja.“

Í framhaldinu segir hann eðlilegt að spurt sé hvort eitthvað sé til í „þeim alvarlegu ásökunum og/eða dylgjum sem í þessari umfjöllun felast“. Rekur hann þarnæst skipunarferli Lúðvíks í smáatriðum og útskýrir hvers vegna Lúðvík hafi verið valinn umfram tvo aðra sem Festi tilnefndi til starfans, auk þess að benda á að félagið hafi ekki gert athugasemdir við störf hans og greiðslur eða óskað eftir inngripi eftirlitsins.

Þá segir hann viðhorfin sem fram komi í ofangreindum umfjöllunum ekki endurspegla almennt viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Reynsla eftirlitsins sé að „ flestir stjórnendur fyrirtækja skynji mikilvægi eftirlits, virði settar reglur og vilji eiga í greiðum og góðum samskiptum við eftirlitsstofnanir.“

Að lokum fullyrðir hann að málflutningurinn sé „hvorki til hagsbóta fyrir né þóknanlegur þorra íslenskra fyrirtækja“.