Vantrauststillaga Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, er út í hött, að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hún lagði áherslu á að verði tillagan samþykkt muni hún skila því að til valda kemur umboðslaus ríkisstjórn í einn og hálfan mánuð eða fram að næstu Alþingiskosningum í apríl. Hún benti á það á Alþingi í dag eftir að Þór Saari lagði vantrauststillöguna fram að sjö vikur eru til kosninga og utankjörstaðarkosning þegar hafin.

„Hvers lags vitleysa er þetta? Þetta er skrípaleikur,“ sagði Jóhanna og sagði m.a. ríkisstjórn sín hafi unnið að því að gera þjóðarvilja að veruleika þrátt fyrir óbilgjarna gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Þá sagði Jóhanna stjórnarandstöðuna hafa ástundað svikabrigsl til að spilla fyrir ríkisstjórninni og væri vantrauststillagan í takt við það.